Konurnar fengu titrara í verðlaun

Það var ekki beint góð tilfinning sem titrari í gjafaöskju …
Það var ekki beint góð tilfinning sem titrari í gjafaöskju olli konum tveimur sem fengu hann að verðlaunum fyrir sigur í íþróttakeppni. Thinkstock / Getty Images

Skvasskonur sem fóru með sigur af hólmi í meistarakeppni sjálfsstjórnarhéraðsins Asturias á Spáni fengu bikar í verðlaun. Venju samkvæmt. Dálítið fylgdi hins vegar bikarnum, sem hefur vakið hneykslan um heim allan.

Það var titrari. Sem sagt kynlífstæki. 

Og sömuleiðis háreyðingarvax og þjöl til þess að berjast gegn siggi á fótum.

Slíka glaðninga var ekki að finna í pakkanum sem karlarnir sem sigruðu sama mót í sinni deild fengu. Þar var í raun ekki um neinn pakka að ræða, heldur fengu karlarnir ekkert annað í verðlaun en bara bikarana.

„Mér var brugðið og mér gramdist þetta,“ sagði Elisabet Sadó í samtali við El País. Hún var önnur tveggja kvenna sem fengu þennan glaðning frá skipuleggjendum hátíðarinnar eftir að hún sigraði keppnina laugardaginn 11. maí. 

Hún hefur keppt sem atvinnumaður í skvassi í 15 ár. Sadó seg­ist ánægð með að uppá­kom­an hafi vakið umræðu á Spáni um kon­ur í íþrótt­um. Hún seg­ir jafn­framt tíma­bært að lög tryggi rétt kvenna til íþróttaiðkun­ar í land­inu. 

Þremur hefur verið vikið úr starfi í kjölfar hneykslisins hjá skvassfélaginu sem skipulagði keppnina og ráðstafaði gjöfunum. Málið er til skoðunar hjá kvennasamtökum á svæðinu, hvort frekari afleiðingar verði af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert