Þrír í haldi vegna árásarinnar í Köben

Miklar skemmdir urðu á skrifstofum skattstofunnar í sprengingunni.
Miklar skemmdir urðu á skrifstofum skattstofunnar í sprengingunni. AFP

Sænska lögreglan hefur handtekið tvo menn sem grunaðir eru um aðild að sprengjuárás við skattstofuna í Kaupmannahöfn 6. ágúst. Mennirnir tveir eru 22 og 27 ára gamlir og verða þeir í haldi þar til ákeðið er hvort farið verður fram á gæsluvarðhald, en það skal gert fyrir hádegi á laugardag, að því er danska ríkisútvarpið hefur eftir sænskum saksóknurum.

Mennirnir voru handteknir á Skáni í Suður-Svíþjóð, rétt eins og sænskur maður sem tekinn var höndum stuttu eftir árásina og síðar framseldur dönskum yfirvöldum. Þrír eru því í haldi vegna árásarinnar, en fjórði maðurinn sem grunaður er um verknaðinn gengur enn laus og var lýst eftir honum alþjóðlega í síðustu viku.

Sprengjan sprakk aðeins 60 sentimetra frá inngangi skattstofunnar og voru tveir í hús­inu en þeim varð ekki meint af. Einn maður sem var stadd­ur nærri Nor­d­havn-lest­ar­stöðinni fékk þó í sig flís­ar og brot vegna spreng­ing­ar­inn­ar og þurfti að leita sér aðhlynn­ing­ar á slysa­deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert