Fangaverðir hlógu að deyjandi fanga

Fangaverðir hlógu þegar Terruso hóstaði blóði.
Fangaverðir hlógu þegar Terruso hóstaði blóði. mbl.is/Brynjar Gauti

Karlmaður sem lést í varðhaldi í New Jersey í Bandaríkjunum í vikunni grátbað um vatn og hóstaði upp blóði á meðan fangaverðir hlógu, að sögn annars fanga.

Mario Terruso var 41 árs þegar hann lést á spítala í New Jersey aðfaranótt mánudags. Hann var fluttur úr Atlantic County-fangelsinu á spítalann, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá fangelsismálayfirvöldum. Þau segja málið í rannsókn.

Terruso var handtekinn síðdegis á sunnudag og færður í áðurnefnt fangelsi. 

Annar fangi, Alan Wright, kveðst hafa þekkt Terruso í 16 ár. Hann var að ræða við eiginkonu sína í síma þegar atvikið átti sér stað og hún skrifaði um það á facebooksíðu sína.

„Ég sagði henni að skrifa akkúrat það sem ég sá,“ sagði Wright í samtali við NBC á föstudag en hann var látinn laus úr fangelsi í vikunni.

Wright lýsti því þannig að hann hefði séð Terruso þjást þegar hann yfirgaf klefann sinn til að fara á salernið, um klukkan sex síðdegis.

Wright segir að Terruso hafi grátbeðið um vatn. Hann sagðist hafa gleypt eitthvað og andardrátturinn var mjög ör.

„Mér var sagt að ég gæti ekki gefið honum vatn og þetta væri bara bull og vitleysa í honum,“ sagði Wright. 

Hann bætti því við að starfsfólk fangelsisins hefði staðið fyrir utan klefa Terrusos og spurt hvort hann hagaði sér svona utan rimlanna. 

„Hann ældi blóði og fötin hans voru gegnsósa af svita,“ sagði Wright og bætti við að þrátt fyrir það hefði starfsfólk fangelsisins sagt að ekkert amaði að Terruso.

Einhverjir reyndu að róa Terruso niður. Hann róaðist ekki en grátbað um að verða sendur á spítala. Starfsfólki þótti hann fullæstur og þegar þarna var komið sögu bundu fangaverðir hann niður.

„Hann vildi bara hjálp,“ sagði Wright.

Talsmaður saksóknara sagði að málið væri í rannsókn og neitaði að tjá sig um ummæli Wrights.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert