Fjármálaráðherrann svipti sig lífi

Thomas Schäfer var fjármálaráðherra Hesse-ríkis í Þýskalandi.
Thomas Schäfer var fjármálaráðherra Hesse-ríkis í Þýskalandi. Ljósmynd/Þing Hesse

Thomas Schäfer, fjármálaráðherra þýska sambandslandsins Hessen, sem hýsir meðal annars fjármálahöfuðborgina Frankfurt, hefur svipt sig lífi. 

Schäfer, sem var 54 ára að aldri, fannst látinn nærri járnbrautarlestarteinum í gær. Saksóknarar í Wiesbaden segjast telja hann hafa framið sjálfsvíg.

„Við erum í áfalli, við trúum þessu ekki og umfram allt erum við gríðarlega sorgmædd,“ segir forsætisráðherra sambandslandsins, Volker Bouffier, í yfirlýsingu í dag.

Haft miklar áhyggjur

Eins og áður sagði er borgin Frankfurt innan Hessen, en þar hafa stórir bankar og lánveitendur á borð við Deutsche Bank og Commerzbank höfuðstöðvar sínar, auk Seðlabanka Evrópu.

Bouffier minntist þess í dag að hafa séð Schäfer, sem var fjármálaráðherra Hessen í tíu ár, vinna að því nótt sem dag að hjálpa fyrirtækjum og almenningi að eiga við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins.

„Við verðum að gera ráð fyrir því að hann hafi haft miklar áhyggjur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert