Líkamsleifar fjögurra ára drengs fundust

Frá vettvangi á eyjunni Neeltje Jans.
Frá vettvangi á eyjunni Neeltje Jans. AFP

Hollenska lögreglan fann seint í gær líkamsleifar belgísks drengs sem hvarf fyrir fimm dögum. Hvarf hans leiddi til víðtækrar leitar í tveimur löndum. 

Drengurinn hét Dean Verberckmoes og var fjögurra ára.

Líkamsleifar hans fundust í suðurhluta Hollands eftir að karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í um 120 kílómetra fjarlægð fyrr um daginn, að sögn lögreglu. 

„Við þökkum öllum fyrir sem hjálpuðu til við leitina og sendum fjölskyldu drengsins samúðarkveðjur,“ sagði í tilkynningu frá lögreglunni. 

Drengurinn fannst á eyjunni Neeltje Jans, eyju sem er mjög vinsæl á meðal hollenskra ferðamanna. 

Samkvæmt lögreglu sást síðast til drengsins og hins grunaða á miðvikudag í síðustu viku. Það var í belgísku borginni Sint Niklaas. 

Leit fór svo af stað í Hollandi eftir að vísbendingar um að drengurinn væri í landinu komu upp á yfirborðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert