Fundu líkamsleifar í ferðatösku

Taskan var keypt á uppboði í Suður-Auckland.
Taskan var keypt á uppboði í Suður-Auckland. Ljósmynd/Colourbox

Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur hafið morðrannsókn eftir að líkamsleifar fundust í ferðatösku sem keypt var á uppboði í borginni Auckland. Ekki er enn vitað hvort líkamsleifarnar eru af einum einstaklingi eða fleirum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Það var fjölskylda í Suður-Auckland sem keypti töskuna á uppboði þar sem boðnir voru upp munir úr yfirgefinni geymslu. Fjölskyldan uppgötvaði svo óvænt innihaldið þegar heim var komið og kallaði til lögreglu.

Lögreglan telur nokkuð öruggt að fjölskyldan hafi ekki óhreint mjöl í pokahorninu og tengist ekki meintu morði. Það er nú forgangsmál hjá lögreglunni að bera kennsl á líkamsleifarnar og varpa ljósi á hvað gerðist. Tekið er fram að almenningur þurfi ekki að óttast vegna málsins.

Eigandi geymsluleigunnar Papatoetoe í Suður-Auckland, þar sem taskan hafði verið í geymslu, sagði í samtali við fréttasíðuna Stuff, að hann væri lögreglunni innan handar við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert