Drápu tugi dýra með sveðjum og kylfum

Dauðir krókódílar í stórum haug innan búgarðsins.
Dauðir krókódílar í stórum haug innan búgarðsins. AFP

Æstur múgur í Indónesíu vopnaður kylfum og sveðjum slátraði tæplega 300 krókódílum í hefndaraðgerð eftir að maður hafði verið drepinn af krókódíl. Þetta staðfesta yfirvöld á staðnum.

Á myndum má sjá tugi dauðra og blóðugra krókódíla en árásin átti sér stað á búgarði í Papúa þar sem krókódílar eru ræktaðir.

Atvikið átti sér stað á laugardag en þann dag var gerð útför 48 ára gamals manns sem fór inn fyrir girðingu við garðinn er hann var að leita að vatni fyrir búfé sitt. 

„Einn af starfsmönnum krókódílagarðsins heyrði einhvern öskra á hjálp og hljóp á vettvang en varð þá vitni að því er krókódíllinn réðst á manninn,“ segir Basar Manullang, yfirmaður Náttúrustofnunarinnar á svæðinu.

Einn úr hópnum heggur krókódíl með öxi.
Einn úr hópnum heggur krókódíl með öxi. AFP

Fjölskylda mannsins sem og hundruð annarra manna úr nágrenninu, sem eru ósáttir við staðsetningu garðsins skammt frá íbúasvæði, æddi inn á lögreglustöðina í bænum og fékk þá að vita að eiganda garðsins yrði gert að greiða sekt. 

Þessa refsingu vildi fólkið ekki sætta sig við og gekk með kylfur, hnífa, sveðjur og skóflur að vopni að garðinum. Það fór svo þangað inn og drap 292 krókódíla, jafnt unga sem gamla.

Lögreglan gat ekkert gert til að stöðva blóðbaðið. Talið er að einhverjir úr hópnum verði ákærðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert