Bíll valt á hliðina á Öxnadalsheiði

Sannkölluð vetrarfærð er á Öxnadalsheiði líkt og sjá má á …
Sannkölluð vetrarfærð er á Öxnadalsheiði líkt og sjá má á þessari mynd sem tekin var í hádeginu. Ljósmynd/Davíð Örvar Hansson

Betur fór en á horfðist þegar bíll fór á hliðina á Öxnadalsheiðinni rétt eftir hádegi í dag. Slæm færð er á heiðinni vegna krapa á veginum og missti ökumaður bílsins stjórn á bílnum. „Hann fór á hliðina og aftur á hjólin,“ segir Snorri Geir Snorrason, lögreglumaður hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. Lögreglunni á Sauðárkróki barst í fyrstu tilkynning um bílveltu en í ljós kom að útkallið var ekki eins alvarlegt og talið var í fyrstu. Tveir farþegar voru í bílnum og hlutu þeir minni háttar meiðsli en leituðu læknisaðstoðar á Akureyri.

Ekkert ferðaveður hefur verið á Norður- og Norðausturlandi í dag nema fyrir bíla sem eru útbúnir fyrir vetrarakstur. Margir ökumenn, aðallega erlendir ferðamenn, hafa lent í vandræðum og fjöldi bíla hefur setið fastur á heiðum og fjallvegum á Norðausturlandi.

Ökumenn treystu sér ekki upp Öxnadalsheiði

Bílaraðir mynduðust neðst í Bakkaselsbrekku þar sem ökumenn ýmist komust ekki upp brekkuna inn á heiðina eða hreinlega treystu sér ekki, að sögn Snorra. Lögreglan óskaði því eftir aðstoð björgunarsveita við að greiða úr flækjunni og aðstoða ökumenn sem á þurftu að halda.  

Veginum um Námaskarð í Mývatnssveit var lokað um tíma í dag vegna umferðaróhapps og ófærðar. Engin slys urðu á fólki en bílarnir skemmdust töluvert. Vegurinn um Námaskarð var opnaður aftur um tvöleytið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru hálkublettir á Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Hólasandi og Mývatnsöræfum en snjóþekja á Möðrudalsöræfum og Hellisheiði eystri. Hálkublettir eru einnig á Fjarðarheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert