Íslendingar „grátt leiknir“ af grannþjóðum

Hannes Hólmsteinn afhenti Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, skýrsluna í …
Hannes Hólmsteinn afhenti Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, skýrsluna í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, afhenti fjármálaráðherra skýrslu sína um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins í fjármálaráðuneytinu í dag. Hannes hefur unnið að skýrslunni í um fjögur ár og hefur útgáfa hennar dregist talsvert. „Skýrslan sýnir hversu grátt Íslendingar voru leiknir af grannþjóðunum,“ segir Hannes.

Skýrslan er á ensku og telur endanleg útgáfa hennar um 180 blaðsíður. Hannes hefur unnið að skýrslunni í um fjögur ár og hefur útgáfa hennar dregist talsvert, en stytting skýrslunnar er meðal þess sem hafði áhrif á seinkun útgáfu hennar.

Mbl.is heyrði í Hannesi nú fyrir hádegi. Helstu niðurstöður skýrslunnar segir Hannes vera þær að beiting hryðjuverkalaga gegn Íslandi hafi verið bæði ruddaleg og óþörf, og að Bretar hafi beitt Íslendinga misrétti með því að loka tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, en bjarga öllum öðrum breskum bönkum.

Úr 600 blaðsíðum í 180

„Ég hafði skrifað mjög langa skýrslu og skilað henni á tilsettum tíma. Hún var um 600 blaðsíður og sá ég í samráði við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að hún væri allt of löng. Mikill tími fór í að skera hana niður í 320 blaðsíður, en síðan fannst okkur að hún væri jafnvel of löng og ég tók þriðju atrennu að henni og skar hana niður í 180 blaðsíður.“

Hannesi fannst einnig viðeigandi að skýrslan kæmi út núna vegna þess að tíu ár eru frá hruninu, en meðal annarra áhrifaþátta var útgáfa annarra skýrslna um hrunið, sem Hannes vildi bíða eftir, og bið eftir viðmælendum.

Breska fjármálaeftirlitið gaf út tilskipun á hendur Landsbankanum í Lundúnum …
Breska fjármálaeftirlitið gaf út tilskipun á hendur Landsbankanum í Lundúnum fimm dögum áður en hryðjuverkalögum var beitt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hannes segir að honum takist í skýrslunni að sýna fram á að hryðjuverkalögin hafi verið óþörf. „Óþörf vegna þess að ég fann tilskipun frá breska fjármálaeftirlitinu til útibús Landsbankans í Lundúnum, sem var gefin út fimm dögum áður en hryðjuverkalögin voru sett. Þar var Landsbankanum bannað að flytja fé úr landi nema með samþykki fjármálaeftirlitsins. Þetta hefði alveg nægt til þess að hindra ólöglega fjármagnsflutninga úr landi, en það var tilgangur hryðjuverkalaganna.“

Íslendingum mismunað á grundvelli þjóðernis

„Beiting hryðjuverkalaganna var líka mjög ruddaleg vegna þess að hún hafði þungar búsifjar í för með sér fyrir Íslendinga, og var dónaskapur við gamla grannþjóð. Það sést líka hversu ruddaleg hún var þegar haft er í huga að gegn Þjóðverjum, sem bjuggu við sömu aðstæður, var engum hryðjuverkalögum beitt, heldur var þeim veitt lán. Þetta var allt gert þegjandi og hljóðalaust á nokkrum mánuðum án nokkurrar milliríkjadeilu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðra meginniðurstöðu skýrslunnar segir Hannes vera að Bretar hafi mismunað Íslendingum með því að loka tveimur breskum bönkum sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF, á sama tíma og þeir björguðu öllum öðrum breskum bönkum. „Síðan kemur í ljós þegar þessir bresku bankar, sem voru í eigu íslendinga, voru gerðir upp að þeir áttu báðir fyrir skuldum. Þeir voru alls ekki gjaldþrota og það var alveg að ósekju sem þeim var lokað.“

Hannes veltir fyrir sér hvers vegna framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi ekki tekið málið upp því þarna hafi Íslendingum augljóslega verið mismunað á grundvelli þjóðernis. „Það fengu allir bankar í Bretlandi aðstoð nema þeir tveir bankar sem voru í eigu Íslendinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert