89% verkefna fram úr áætlun

Vaðlaheiðargöng er eitt þeirra verkefna sem hafa endað langt umfram …
Vaðlaheiðargöng er eitt þeirra verkefna sem hafa endað langt umfram áætlaðan kostnað, en er ekki einsdæmi þar sem vísbendingar eru um að slíkt sé algengt þegar kemur að opinberum framkvæmdum á Íslandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vísbendingar eru um að mikill meirihluti opinbera framkvæmda fara framúr kostnaðaráætlun og er hvergi til miðlægur gagnagrunnur um opinberar framkvæmdir á Íslandi svo hægt sé að læra af reynslu fyrri verkefna. Þetta kom fram í máli Þórðar Víkings Friðgeirssonar, lektors við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, á fundi Verkfræðingafélagsins á Hilton í morgun.

Þórður Víkingur Friðgeirsson
Þórður Víkingur Friðgeirsson

Þá sagði hann að nágrannaþjóðir Íslands hafa komið á kerfum til þess að mæta áskorunum við áætlanagerð með verulegum árangri, en það hefur ekki verið gert hérlendis.

Gagnasöfnun tækni- og verkfræðideildar HR leiddi í ljós að í tæplega 90% allra verkefna sem voru skoðuð hafði kostnaður orðið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir, að því er fram kom í tölum lektorsins. Gagnagrunnur deildarinnar nær til stærri verkefna á vegum ríkis og sveitarfélaga og er ekki tæmandi en gefur ákveðna vísbendingu um stöðu mála, að mati Þórðar Víkings.

Hann sagði ljóst að ekki væri verið að ná betri árangri í kostnaðaráætlunum sem sé áhyggjuefni sérstaklega á þessum tímum og vísaði til þess að erfitt væri að vera viss um hvaða tölur væri verið að tala um í fréttum og tilkynningum þegar framúrkeyrsla sé almennt um 60%. Þórður Víkingur fullyrti að hægt væri að gera betur, en skortur væri á upplýsingum um fyrri verkefni.

Umboðsvandi

Skortur á upplýsingum og gögnum er ekki nægileg skýring á því að áætlanir standist ekki að mati Þórðar Víkings, sem benti á að ef það væri tilfellið myndi vera jafnari dreifing verkefna undir og yfir áætluðum kostnaði. Hins vegar var áberandi fjöldi verkefna yfir áætluðum kostnaði, þess vegna sé einnig mikilvægt að líta á vandamálið við áætlanagerð sem félagslegt vandamál.

„Þetta er ekki eitthvað sér íslenskt vandamál. Það er vel þekkt vandamál sem kallast umboðsvandi,“ sagði lektorinn sem útskýrði að það í hnotskurn snýr að því að umboðsaðili og greiðandi hafa ekki alltaf sömu hagsmuni, vísaði hann til stjórnmálmanna, kjósenda, þrýstihópa og aðra hagsmunaaðila.

Þegar verkefni eru á hugmyndastiginu myndast oft vitsmunaskekkja vegna bjartsýnis, að sögn Þórðar Víkings. Síðan þegar framkvæmdir fara af stað myndast þrýstingur ólíkra hópa sem ýtir undir frekari skekkjur.

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir við hinn margnefnda bragga í Nauthólsvík …
Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir við hinn margnefnda bragga í Nauthólsvík var 146-158 milljónir. Kostaðurinn varð yfir 400 milljónir. mbl.is/Hari

Þörf á úrbótum

Hægt er að mæta þessum skekkjum með því að fara í svipaðar aðgerðir og önnur lönd hafa gert fullyrti hann og benti á að við innleiðingu opinberrar gæðatryggingar hefur Norðmönnum tekist að lækka raunkostnað um 14%. „Ísland hefur valið aðra leið en þær þjóðir sem við berum okkur helst við. Norðmenn voru á sama stað og við erum nú fyrir um 15 til 20 árum.“

Lagði lektorinn fram tvær tillögur til úrbóta. Annars vegar upptaka opinbers gæðatryggingarkerfis þar sem hugtök eins og hagkvæmisathugun sé betur skilgreind og að skýrar leikreglur séu til varðandi tilhögun samskipta verktaka, hönnuða og annarra við hið opinbera.

Hin tillagan var að koma á miðlægum gagnagrunni um opinber verkefni svo hægt sé að meta áhættu er tengist framúrkeyrslu út frá fenginni reynslu. „Reynsla leiðir okkur framhjá óskhyggjunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert