Bjóða þeim sem eru einir á jólum í mat

Feðgarnir Viktor Joensen og Bergleif Joensen.
Feðgarnir Viktor Joensen og Bergleif Joensen. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var hugmynd hjá pabba mínum,“ segir Viktor Joensen í samtali við mbl.is. Hann og pabbinn, Bergleif Joensen, eru meðal þeirra sem skipuleggja jólamat á aðfangadagskvöld á Orange Café Espresso Bar í Ármúla fyrir þá sem eru einmana um jólin.

„Pabbi hefur verið mikið einn um jólin, veit hvernig tilfinningin er, og kom með þessa hugmynd. Ég greip boltann á lofti og gerði þetta að raunveruleika,“ segir Viktor.

Greint er frá viðburðinum á Facebook-síðu Orange Café þar sem segir að boðið verði upp á þriggja rétta hátíðarkvöldverð og jólagjafir fyrir þá sem verða ekki með fjölskyldum sínum á aðfangadagskvöld meðan húsrúm leyfir. Staðurinn mun opna klukkan 17:00 og borðhald hefst klukkustund síðar.

Fjöldi fyrirtækja styrkir framtakið og Viktor er ánægður með hlýhuginn sem þeim er sýndur. Auk þess hafa einstaklingar hringt og boðið fram aðstoð sína.

„Þetta er ekki góður tími til að vera einn og þess vegna ákváðum við að gera þetta,“ segir Viktor. Hann segist ekki hafa verið mikið jólabarn hingað til en það sé að breytast.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég er að taka inn kærleik jólanna. Núna átta ég mig loksins á tilgangi jólanna en ég hef alltaf verið rosalega lokaður á jólunum. Þetta snýst um að njóta með vinum og fjölskyldu og þeim sem þurfa á því að halda,“ segir Viktor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert