Hvatti hana til að fara úr baðfötunum

Halla Gunnarsdóttir segir hlustunarskilyrði samfélagsins betri en nokkru sinni fyrr …
Halla Gunnarsdóttir segir hlustunarskilyrði samfélagsins betri en nokkru sinni fyrr og því geti hún sjálf sagt frá upplifun sinni af kynferðislegri áreitni án þess að finna fyrir sjálfsásökuninni.

„Ég veit ekki hvort maður þarf að vera kona til að skilja hvað svona aðstæður geta verið erfiðar. Hversu erfitt það er að koma sér út úr þeim, hin hræðilega hugsun um að kannski sé betra að spila bara með, og hversu hratt sjálfsásökunin mætir á svæðið.“ Þetta segir Halla Gunnardóttir, ráðgjafi forsætisráðherra, í pistli á vefnum knuz um kynferðislega áreitni af hálfu júdóþjálfara sem hún varð fyrir.

Atvikið átti sér stað fyrir nokkrum árum þegar hún ákvað að byrja að æfa júdó á Íslandi eftir að hafa kynnst íþróttinni í Ástralíu nokkrum árum áður. Hún lýsir því hvernig þjálfarinn hafi farið að veita henni sífellt meiri athygli. Hann benti henni á að það væri tilvalið að fara í gufubað til að létta sig um nokkur kíló svo hún gæti mögulega keppt í greininni og ætti möguleika á Íslandsmeistaratitli.  

Þannig einhvern veginn varð úr að ég var stödd ein í gufubaði í tómu íþróttahúsi með þessum manni, sem var tvöfalt eldri en ég, stór og stæðilegur og þekktur í sinni bardagalist. Þar sem hann hvatti mig til að fara úr baðfötunum og vigta mig rann smám saman upp fyrir mér að hann hafði eitthvað allt annað í huga en ég. Og hann gerðist talvert ágengur í að ná sínu fram.“

Þögnin er sterk

Halla greinir frá því hversu sterk sjálfsásökunin verður í slíkum aðstæðum og hversu hratt hún reisti þagnarmúr í kringum atvikið. Á þessum tíma var hún virk í Femínistafélagi Íslands og heimsótti skóla um allt land með fyrirlestra um eðli og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis og kynferðislegrar áreitni.

„Ég hafði útskýrt í ítarlegu máli fyrir öðrum hvers vegna þögnin er svona sterk. Ef við búum í samfélagi sem hefur alltaf sagt okkur að passa okkur, þá beinum við þeim skilaboðum auðvitað inn á við ef við verðum fyrir ofbeldi eða áreitni. Þrátt fyrir að ég þekkti þetta allt í orði kveðnu, þá var það samt svo að þegar ég varð fyrir kynferðislegri áreitni í íþróttum þá ákvað ég strax að þegja yfir því um aldur og ævi.“

Ástæðan fyrir því að Halla ákvað að tjá sig um áreitnina núna er meðal annars sú að #metoo bylgjan hefur náð inn í íþróttirnar og fólk er betur tilbúið að hlusta. „Hlustunarskilyrði samfélagsins eru betri en nokkru sinni fyrr og ég get sjálf sett orð á þessa upplifun án þess að finna fyrir sjálfsásökuninni. Og ég get haft smá von um að þessi frásögn verði til góðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert