Reyndist vera lögreglumaður en ekki þjófur

Nágranni mannsins sem tilkynnti um innbrotið hafði farið mannavillt.
Nágranni mannsins sem tilkynnti um innbrotið hafði farið mannavillt. mbl.is/​Hari

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst nýverið tilkynning um yfirstandandi innbrot í raðhús í umdæminu þar sem skuggalegt par á miðjum aldri hafði fundið sér leið inn í húsið í gegn um bílskúrinn.

Þessu greinir lögreglan frá á Facebook-síðu sinni. Fljótt kom þó í ljós að ekki var allt sem sýndist, en lögreglan brást skjótt við og hringdi í húsráðanda til að upplýsa hann um stöðu mála.

Sá var í makindum heima hjá sér þegar hann svaraði símtali lögreglunnar og kvaðst raunar nýkominn inn eftir göngutúr með konunni í slagviðrinu. Hann sagði þau sjálf hafa farið inn um bílskúrinn og var lögreglubílnum með blikkandi ljós snúið við þegar staðreyndir málsins blöstu við.

Nágranni mannsins sem tilkynnti um innbrotið hafði farið mannavillt, en húsráðandi í umræddu raðhúsi er raunar starfandi lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið duglegur að hvetja nágranna sína til þess að láta lögreglu vita af grunsamlegum mannaferðum.

„Sá sem hringdi í lögregluna í þessu tilfelli brást því hárrétt við enda er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan,“ segir í færslu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert