Ókeypis og án aukaverkana

Laufey Steindórsdóttir kennir jóga nidra en var áður gjörgæsluhjúkrunarfræðingur. Hún …
Laufey Steindórsdóttir kennir jóga nidra en var áður gjörgæsluhjúkrunarfræðingur. Hún segir hugleiðslu leiðina út úr streitu og álagi. mbl.is/Ásdís

Árið 2013 kom að því að Laufey keyrði á vegg, eins og hún orðar það. Þá hafði hún starfað sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur frá árinu 2008.

„Þetta var ekki eiginleg vinnukulnun heldur frekar var það álag í lífinu og streita sem ollu þessu. Þegar við komum heim eftir sérnám fórum við bæði að vinna vaktavinnu og fórum svo að eignast börn. Yngsta dóttir okkar svaf ekki í tvö ár. Það varð til þess að klára mín batterí endanlega. Ég komst í líkamlegt og andlegt gjaldþrot. Ég var búin að ganga mér til húðar og hlustaði ekki á viðvörunarbjöllurnar. En svo kom að því að ég gat ekki meir. Þá var ekkert annað í boði en að kúvenda mínu lífi og ég hætti að vinna á Landspítalanum og fór þá í innra ferðalag,“ segir hún.

Innri tenging í gegnum hugleiðslu

Laufey fór á stjá að leita leiða og skoðaði hún ýmsar óhefðbundnar leiðir. Hún hóf nám í heilsumeistaraskólanum haustið 2014 og kynntist hún þar ýmsum uppbyggjandi leiðum, m.a. breyttu og bættu mataræði.

„Þetta var grænn og vænn lífstíll. Ég prófaði ýmislegt; varð vegan, prófaði hráfæði, fór í sjósund en er ekki að segja fólki að það eigi að gera það. Ég vil ekki vera nein öfgamanneskja. Það er ekki minn boðskapur. En þarna byggði ég mig upp og fann sjálfa mig, en það vantaði alltaf eitthvað upp á. Svo strax um haustið var manneskja sem leiddi mig inn í minn fyrsta jógatíma í Yoga Shala Reykjavík hjá Ingibjörgu Stefánsdóttur, jógagúrú Íslands. Ég heillaðist algjörlega og hætti í heilsumeistaraskólanum til að leggja fyrir mig jóga. Í kjölfarið fór ég í jógakennaranám hjá Ingibjörgu og útskrifaðist þaðan árið 2017,“ segir hún.

„Þarna kynntist ég jóga og náði innri tengingu í hugleiðslu, sem ég hafði aldrei náð áður. Þarna var ég að hreyfa mig en á sama tíma að fara inn á við. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kynntist hugleiðslu og lærði jóga nidra og er ég í dag jóga nidra kennari,“ segir hún og útskýrir í hverju það felst.

„Það er ævaforn hugleiðslutækni, stundum kallað jógískur svefn, en í rauninni er þetta eitt aðgengilegasta form hugleiðslu því um er að ræða leidda liggjandi hugleiðslu og djúpslökun. Iðkandinn þarf aðeins að leggjast á dýnu og sleppa tökum og kennarinn leiðir viðkomandi inn í hugleiðsluna, eins konar hugleiðsluferðalag. Þetta er áreynslulaus streitulosun og núllstilling.“

Laufey notar gong í Kyrrðarjóga.
Laufey notar gong í Kyrrðarjóga. mbl.is/Ásdís

Kyrrðarjóga fyrir heilbrigðisstarfsfólk

„Jóga nidra hjálpar ekki bara fólki sem þjáist af streitu heldur hjálpar það líka með svefn og kvíða. Ég náði tökum á mínum kvíða og held honum niðri þótt hann sé minn ferðafélagi í lífinu,“ segir Laufey og hóf hún að kenna jóga í Yoga Shala. Þá fékk hún þá hugmynd að kynna hugleiðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólki.

„Þetta er mín köllun. Það er mikið álag á heilbrigðisfólki og fólki almennt, bæði í vinnunni og í lífinu sjálfu,“ segir hún.

„Heilbrigðisstarfsfólk fer í 35 mínútna jóga nidra tíma og það er rosalega ánægja hjá fólkinu. Það er sannað að það hægist á heilabylgjum þannig að það eru vísindi á bakvið þetta. Við leiðum fólk inn í líkamlega djúpslökun og með því að gera öndunaræfingar þá virkjast slakandi hluti taugakerfisins. Svo er það hugleiðslan. Eftir svona 25 mínútur er fólk komið inn í streitulaust rými milli svefns og vöku,“ segir Laufey en hún notar einnig tónheilun í Kyrrðarjóga. Til þess spilar hún bæði á hörpu og gong.

„Fólk á Vesturlöndum er að átta sig á því að þessi aldagamla viska er að virka. Hugleiðsla er heimspeki og það hafa allir aðgang að henni. En hún er líka vísindi því það er búið að sanna ágæti þess að hugleiða. Hugleiðsla er mótefnið, ókeypis og án aukaverkana. En það þarf einhver að leiða þig inn í hana og opna þennan töfraheim og ég geri það í gegnum jóga nidra. Því þetta er töfraheimur,“ segir Laufey.

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert