Átt þú von á bréfi?

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Á næstu dögum eiga 250 börn um land allt von á bréfi frá umboðsmanni barna. Bréfið inniheldur boð á Barnaþing sem haldið verður í Hörpu í Reykjavík 21. og 22. nóvember og verður hápunktur afmælisárs barnasáttmálans en í ár eru 30 ár liðin frá því hann var samþykktur af Sameinuðu þjóðunum.

Börnin voru valin með slembivali úr þjóðskrá til að fá sem fjölbreyttastan hóp til þátttöku en markmið þingsins  er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem varða þau. Niðurstöður umræðunnar verða kynntar ríkisstjórn sem framlag í stefnumótun um málefni barna.

Þingið verður sett 21. nóvember með formlegri dagskrá en 22. nóvember verður dagskráin tvískipt með annars vegar þjóðfundi með þátttöku barna og fullorðinna og hins vegar opinni dagskrá.

Ásamt börnunum verður alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og frjálsum félagasamtökum boðið á þingið. Vigdís Finnbogadóttir er sérstakur verndari barnaþingsins en hún hefur unnið ötullega að málefnum barna og barnamenningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert