Heimahjúkrun langveikra barna að óbreyttu lögð niður

Heimahjúkrun barna hefur þjónustað langveik börn eða börn með sjaldgæfa …
Heimahjúkrun barna hefur þjónustað langveik börn eða börn með sjaldgæfa sjúkdóma á heimili þeirra. Þjónustan hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og einnig víðar. Starfseminni er nú teflt í tvísýnu með uppsögn samninga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stofnun sem hefur séð um heimahjúkrun langveikra barna er að missa samning við Sjúkratryggingar Íslands. Það þýðir að starfsemin muni að líkindum leggja upp laupana þegar svo verður.

Halldóra Kristjánsdóttir, barnahjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá Heimahjúkrun langveikra barna á vegum Heilsueflingarmiðstöðvarinnar, segir með öllu á huldu hvað taki við í þjónustu við þau börn sem hafa notið þjónustu Heimahjúkrunar barna.

Foreldrum í þjónustu heimahjúkrunar barna eru miður sín yfir þessum fréttum. Þeir eru undrandi, reiðir og uggandi um framhaldið, að sögn Halldóru.

Sjúkratryggingar Íslands, SÍ, sendu Heimahjúkrun barna bréf þess efnis í byrjun júní að frá og með 1. desember verði samningum SÍ við þjónustuna sagt upp. Þetta þýðir að Heimahjúkrun barna verði að óbreyttu lögð niður.

Bréfið var sent í miðjum samningi, sem átti að vera til þriggja ára og var undirritaður í febrúar 2018.

„Við ætluðum að fagna 30 ára afmæli í ár og gera eitthvað sniðugt í tilefni þess í haust,“ segir Halldóra.

Halldóra Kristjánsdóttir barnahjúkrunarfræðingur: „Þegar við vorum að læra voru börn …
Halldóra Kristjánsdóttir barnahjúkrunarfræðingur: „Þegar við vorum að læra voru börn enn þá inni á barnadeild sem voru þar alla ævi. Þau fengu aldrei að fara heim til sín. Með tilkomu heimahjúkrunar var börnum fyrst gert kleift að fá grundvallarþjónustu á heimili sínu. Nú er því teflt í tvísýnu.“ Ljósmynd/HEM

Síðan kom bréfið frá SÍ. Sú ráðstöfun mun kippa undan þjónustunni fótunum, ef fram fer sem horfir. Að sögn Halldóru hefur Heimahjúkrunin leitast við að fá fund við Sjúkratryggingar en það hefur enn ekki gengið eftir.

Heimahjúkrun hafi gert börnum kleift að vera heima

Heimahjúkrun barna var stofnuð árið 1989. „Þegar við vorum að læra voru börn enn þá inni á barnadeild sem voru þar alla ævi. Þau fengu aldrei að fara heim til sín. Með tilkomu heimahjúkrunar var börnum fyrst gert kleift að fá grundvallarþjónustu á heimili sínu. Nú er því teflt í tvísýnu,“ segir Halldóra, sem útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1981.

Þjónustan er fyrst og fremst við langveik og fötluð börn. Hjúkrunarfræðingarnir sem starfa hjá Heimahjúkrun langveikra barna eru sérhæfðir í hjúkrun barna með langvinn veikindi og  sjaldgæfa sjúkdóma. Með árunum hafa lífslíkur þessara barna aukist, að sögn Halldóru, sem einnig eykur þörfina á færum hjúkrunarfræðingum til þess að þjónusta þennan hóp. „Þau lifa lengur núna og þannig hlutfallslega fjölgar þeim. Þau hafa líka flóknari umönnunarþarfir,“ segir Halldóra.

„Við náttúrulega vitum að það er fjölskyldunni best að vera heima. En það verður að vera með viðeigandi stuðningi. Það þýðir ekki að kyrrsetja móðurina eða föðurinn og segja fólki: Lærðu þetta bara,“ segir Halldóra.

„Við erum hrædd um að foreldrarnir verði bara sendir heim og sagt að bjarga sér sjálf. Og það skiptir máli að foreldrar fái að vera foreldrar,“ segi­r Halldóra.

„Ódýrasta þjónusta sem völ er á“

Hjúkrunarfræðingar fara þannig inn á heimili langveikra barna og sinna þar hjúkrun sem annars þyrfti að fara fram á sjúkrahúsum. „Sú þjónusta hefur verið við breiðan hóp. Heimahjúkrun barna starfar þannig að hún fær tilvísun frá lækni barnsins eða sjúkrahús um að þjónusta þurfi barnið á heimili þess. Svo komum við upp sambandi við foreldra barnsins og komum eftir þörfum á heimili þess,“ segir Halldóra.

Heimahjúkrunin er mismunandi eftir tilvikum. „Tækniframfarir gera langveikum börnum kleift að vera heima með öndunarstuðning, næringu í æð, fá lyfjagjafir, fæðugjafir í magasondu og fleira. Slíkt krefst sérþekkingar og reynslu ef þessi starfsemi leggst af er mikil hætta á ferð að það verði erfitt fyrir þessar fjölskyldur að vera heima og einnig að meira álag verði á Barnaspítalanum,“ segir Halldóra. Heilsugæslan kemur ekki að umönnun þessara barna.

Heimahjúkrun barna sinnir einnig börnum með geðraskanir og þar oft um snúin mál að ræða sem krefjast mikillar fagþekkingar og fátt er um úrræði í boði fyrir þann hóp barna og fjölskylda.

Tilvist Heimahjúkrunar kemur þannig í veg fyrir óþarfa innlagnir á Barnaspítalann og felst að miklu leyti í fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir að börn veikist, að sögn Halldóru. Einnig flýtir hún fyrir útskrift veikra barna af barnaspítalanum.

Mikilvægt sé að kostur sé á eins hagkvæmri hjúkrunarþjónustu og Heimahjúkrun barna, á tímum þar sem heilbrigðisþjónusta er stærsti útgjaldaliður ríkisins. Heimahjúkrun barna segir Halldóra að sé meginþjónustuaðili við langveik börn og fjölskyldur þeirra utan sjúkrahúsa og jafnframt ódýrasta form heilbrigðisþjónustu sem völ er á fyrir þennan viðkvæma hóp af sjúklingum.

Börnum 0-18 ára hefur verið sinnt af Heimahjúkrun, aðallega á Stór-Reykjavíkursvæðinu en hefur að sögn Halldóru teygt sig út fyrir Reykjavík þegar þörf hefur krafið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert