Rauf skilorð og fór aftur á bak við lás og slá

mbl.is/Eggert

Landsréttur staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem úrskurðaði á laugardag mann til að afplána 125 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt tveimur dómum sem hann hlaut í héraði, í fyrra og á þessu ári.

Manninum var veitt reynslulausn 11. mars sl. en hann rauf skilyrði reynslulausnarinnar eftir að hann var nýverið handtekinn grunaður um innbrot og þjófnað.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn sé grunaður um að hafa framið innbrot og þjófnað 19. júní á hóteli í Reykjavík. Hann hafi m.a. stolið snjallsímum, fartölvu, sólgleraugum, hörðum disk og kveikjuláslyklum að Cirrus-flugvél.

Hefur lögreglan skoðað upptökur úr öryggismyndavélum á hótelinu. Fram kemur að á þeim megi sjá einstakling sem lögreglumenn beri kennsl á sem manninn sem er nú í haldi. Dómari hefur einnig skoðað myndefnið og þar sést greinilega að um manninn er að ræða þar sem hann kemur inn á hótelið og fer upp á hæðir að ákveðnu herbergi en kemur svo út ganginn og niður með fulla tösku sem ekki var að sjá þegar hann kom á hótelið.

Maðurinn er einnig grunaður um fleiri afbrot undanfarna daga, m.a. vörslur fíkniefna sem hann hefur viðurkennt að eiga. Þegar hann var handtekinn 21. júní fundust á honum 22 töflur af meintu MDMA eða ecstasy, fjórir pokar af hvítu dufti með meintu metamfetamíni og ein hvít tafla sem var merkt Xanax.

Fallist var á það með lögreglu að fyrir liggi rökstuddur grunur um að maðurinn hafi gerst sekur um þjófnað, en umrætt brot getur varðað allt að sex ára fangelsi. Enn fremur sé sterkur grunur um að maðurinn hafi gerst brotlegur við lög um ávana og fíkniefni.

Ljóst sé að maðurinn hafi á reynslutímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar.

Er manninum því gert að afplána 125 daga eftirstöðvar refsingarinnar sem honum var veitt reynslulausn frá í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert