„Fólk vill alltaf grípa inn í“

Margir vinsælir skemmtistaðir eru við Austurstræti.
Margir vinsælir skemmtistaðir eru við Austurstræti. mbl.is/Árni Sæberg

Dyravörður á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur segir mikilvægt að fólk haldi sig til hlés þegar fólk veikist eða slasast á skemmtistöðum. Dyraverðir séu þjálfaðir til að bregðast við slíkum aðstæðum og tryggja öryggi gesta. 

„Fólk vill sjálft reyna að hjálpa og segja okkur til,“ segir Natan Geir Guðmundsson sem hefur starfað sem dyravörður í tvö ár. 

„Fólk veit almennt ekki að dyraverðir eru með ákveðna menntun og vita hvernig eigi að bregðast við. Þegar um líf einhvers er að ræða er stórhættulegt að fólk ætli að grípa inn í aðstæðurnar þegar dyraverðir eru við endurlífgun,“ segir Natan. 

„Lögreglan og slökkviliðið halda samtals átta námskeið fyrir okkur. Það er ýmislegt tekið fyrir á hverju námskeiði eins og áfallahjálp, hvað á að gera ef það kviknar í og fleira í þeim dúr. Síðan koma sjúkraflutningamenn og kenna okkur skyndihjálp,“ segir Natan.

Fjórum sinnum komið að meðvitundarlausri manneskju

Natan segir dyraverði á skemmtistöðum verða að uppfylla ákveðnar kröfur og kunna að bregðast við erfiðum aðstæðum sem upp geta komið. 

„Það eru margir mjög hissa að dyraverðir hafi tekið svona námskeið og séu með skírteini og kunni skyndihjálp og allt þetta. En lögreglan kemur reglulega á skemmtistaði til að passa að við séum með þessi skírteini.“

Natan Geir Guðmundsson.
Natan Geir Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Natan segist fjórum sinnum hafa verið fyrstur að meðvitundarlausri manneskju á skemmtistaðnum og að hann verði stundum gáttaður á gáleysi fólks sem vill grípa inn í aðstæðurnar. Natan segir það geta verið afar hættulegt. 

„Það fyrsta sem við gerum er að athuga púls og öndun og síðan tryggjum við svæðið í kringum manneskjuna, komum fólki frá svo að sjúkraflutningamenn geti, ef þess þarf, fengið greiðan aðgang. Það sem fólk þarf að muna er að koma sér frá og alls ekki reyna að hjálpa nema við biðjum um hjálp.“

Fyrst og fremst að tryggja öryggi 

„Núna um helgina komu til dæmis upp aðstæður þar sem það lá meðvitundarlaus stelpa úti á reykingasvæðinu sem var stútfullt af fólki. Ég þurfti að henda fólki frá og öskra á fólk sem ætlaði bara að skvetta vatni framan í manneskjuna. Ég þurfti að þræta og slást bara til að komast að stelpunni. 

„Fólk vill alltaf grípa inn í af því það veit ekki að dyraverðir eru ekki bara þarna til að vera leiðinlegir og henda fólki út,“ segir Natan. 

„Í einu tilviki féll manneskja í yfirlið á VIP-svæðinu hjá okkur sem er á efri hæð. Í staðinn fyrir að hlaupa niður og ná í dyraverði fór fólk að reyna að bera manneskjuna niður. Það varð þvílíkur troðningur og það á náttúrulega ekki að hreyfa manneskjur við svona aðstæður. Ef þetta hefði verið hjartastopp hefði hjartað í honum ekkert farið aftur í gang.“

Natan segir mikilvægt að fólk hafi það í huga á skemmtistöðum að dyraverðir séu þar fyrst og fremst til að tryggja öryggi. 

„Dyraverðir eru ekki bara einhverjir svaka kallar sem finnst gaman að slást og beita ofbeldi. við erum fyrst og fremst að tryggja öryggi allra á staðnum. Það koma upp erfiðar aðstæður sem við erum þjálfaðir í að leysa og gestir eiga alls ekki að reyna að grípa inn í eða endurlífga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert