Hættulegt að vera á ferli

Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi.
Björgunarsveitarfólk að störfum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aftakaveður hefur verið á Ólafsfirði í alla nótt og eru þakplötur og brak úr tveimur húsum fjúkandi um bæinn. Tómas Atli Einarsson, formaður björgunarsveitarinnar Tinds á Ólafsfirði, biður fólk að halda sig heima og vera ekki á ferli úti við.

Ekki sé forsvaranlegt að senda björgunarsveitarfólk upp á þök húsa í bænum til þess að fergja þau eða hindra fok frá þeim, vindurinn er slíkur og veðurhæðin mikil. Um tvö hús er að ræða við Pálsbergsgötu og hús Norlandia. Brak frá þessum byggingum hefur fokið inn á Aðalgötu, Strandgötu, Kirkjuveg, Vesturgötu og fleiri götur undan veðrinu. 

Tómas segir að veðrið sé heldur að skána á Ólafsfirði en veðrið samt mjög slæmt. „Við erum með ótrygg þök þar sem þakplötur fjúka um allt. Það er mjög varhugavert að vera á ferli og sérstaklega á fyrrgreindum stöðum. Ekki vera á ferli að nauðsynjalausu,“ eru skilaboð formanns björgunarsveitarinnar á Ólafsfirði.

Rafmagnslaust er á Ólafsfirði og segir Tómas að verið sé að keyra rafstöðvar inn á senda og annan búnað tengdan fjarskiptasambandi. 

Bætt við klukkan 9:05

Íbúar á Ólafsfirði eru vinsamlegast beðnir að vera ekki á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til. Járnplötur og brak úr húsum eru á víð og dreif og þá hefur grjót gengið á land. Viljum við sérstaklega nefna Sjávargötu og Námuveg, segir í færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert