Lífið verður aldrei eins aftur

Fáir eru á ferli í New York þessa dagana.
Fáir eru á ferli í New York þessa dagana. AFP

„Ég er hrædd um ekki. Þessi faraldur á eftir að hafa mikil og varanleg áhrif á líf okkar allra. Hver birtingarmyndin verður nákvæmlega á eftir að koma í ljós,“ svarar dr. Erna Milunka Kojic, íslenskur smitsjúkdómalæknir og yfirlæknir við Mount Sinai-sjúkrahúsið í New York, spurð hvort lífið verði ef til vill aldrei eins aftur eftir kórónuveriruna. 

– Hvenær heldur þú að lífið verði farið að ganga sinn vanagang á ný?

„Eins og ég segi þá erum við bara að byrja. Þessi barátta á eftir að standa lengi. Borgarstjórinn hérna í New York sagði í vikunni að faraldurinn ætti eftir að ná hámarki í borginni eftir 43 daga og þá fyrst gætum við byrjað að telja niður. Það er nálægt lagi, held ég. Sumarið á allt eftir að fara í þessa baráttu en vonandi verðum við farin að lifa nokkuð eðlilegu lífi með haustinu. Að halda öðru fram væri skammsýni.“

Dr. Erna Milunka Kojic, smitsjúkdómalæknir í New York.
Dr. Erna Milunka Kojic, smitsjúkdómalæknir í New York.

Fram hefur komið að ástandið í Bandaríkjunum er hvergi verra en í New York, ekki síst á Manhattan. „Það kemur svo sem ekkert á óvart; hér er svakalegur mannfjöldi á mjög litlu svæði, þannig að Manhattan er algjört kjörlendi fyrir veiruna.“

Erna býr á miðri Manhattan og segir andrúmsloftið í borginni gjörbreytt á aðeins einni viku. „Maður fór ekki að finna fyrir þessum breytingum að neinu ráði fyrr en í byrjun þessarar viku. Alla jafna þarf ég ekki að líta á úrið til að vita að klukkan er orðin sjö hérna á Manhattan; ég heyri það bara á hlerum, bílum og fólkinu sem komið er á ról. Núna er dauðaþögn. Það er enginn á götunum, hvorki fólk né bílar og strætó er galtómur. Það er stórmerkilegt að upplifa þetta.“

Finn fyrir mikilli samstöðu

– Hvernig finnst þér fólk taka þessu? Er það hrætt og finnurðu fyrir samstöðu?

„Ég finn fyrir mikilli samstöðu; það er augljóst að fólk virðir tilmæli yfirvalda og heldur sig heima. Gott dæmi um það er að traffíkin í neðanjarðarlestunum hefur minnkað um 80%. Ég sé heldur ekki annað en að fólk haldi í sig tilskilinni fjarlægð hvað frá öðru, þurfi það á annað borð að vera á ferli. Fólk er duglegt að fara eftir þessum leiðbeiningum sem er alls ekki sjálfgefið. Það er auðvitað merki um ákveðna hræðslu, fólk myndi ekki gera þetta annars. Annars held ég að fólk hafi það almennt prýðilegt hérna í borginni. Allar búðir, sem selja nauðsynjavöru, eru opnar og hér er enginn skortur.“

Nánar er rætt við Ernu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert