„Allir hlýði Víði!“ segir forseti Íslands

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, biður fólk um að virða ákvæði um samkomubann, fjöldatakmarkanir og æskilega fjarlægð milli ókunnugra. „Allir hlýði Víði! Leitt er að heyra þau orð hans á fréttamannafundum dag eftir dag að fullmargir sniðgangi fyrirmæli eða átti sig ekki á nauðsynlegum vörnum um þessar mundir.“ Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook í gær.

„Kæru landsmenn: Dagar og vikur líða núna á aðra vegu en við gátum gert okkur í hugarlund fyrir skömmu. Enn sendi ég þeim, sem nú glíma við veikindi, bestu óskir um góðan bata. Einnig færi ég öllum í einangrun eða sóttkví hlýjar kveðjur. Loks vona ég að þeir, sem orðið hafa fyrir búsifjum að undanförnu, muni þrauka þar til úr rætist í efnahagslífi landsins. Þar munu aðgerðir ríkisstjórnar og Alþingis skipta máli.

Að þrauka, vel á minnst: Fólk fer flest eftir tilmælum og leiðbeiningum okkar ágætu forystusveitar í veiruvörnum. Þetta ber að þakka og virða en munum um leið að það er brekka fram undan. Vandinn verður ugglaust viðameiri áður en við náum að fagna sigri. Sýnum því áfram þá þrautseigju sem þarf þegar á reynir. ‒ Og nú bara verða allir að virða ákvæði um samkomubann, fjöldatakmarkanir og æskilega fjarlægð milli ókunnugra. Allir hlýði Víði! Leitt er að heyra þau orð hans á fréttamannafundum dag eftir dag að fullmargir sniðgangi fyrirmæli eða átti sig ekki á nauðsynlegum vörnum um þessar mundir.

Það eru holl ráð, sem heyrst hafa, að gott sé að reyna að halda einhvers konar aga og reglu við þessar erfiðu og dæmafáu aðstæður. Hér kemur því reglubundinn pistill minn, venju samkvæmt. Vissulega er þó leitt að líta yfir fyrirhugaða dagskrá í liðinni viku og sjá hvern viðburðinn á fætur öðrum sem fresta varð eða fella niður vegna veirunnar skæðu og viðbragða til að halda henni í skefjum. Um þetta þýðir þó ekki að fást,“ segir Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands, en færsluna er hægt að lesa hér.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert