Áttu allir að vera í einangrun

Lögreglustöðin Hverfisgötu.
Lögreglustöðin Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Lögreglan hafði afskipti af þremur mönnum í Hafnarfirði í gærkvöldi vegna gruns um  brot á sóttvarnalögum en þeir eiga allir að vera í einangrun vegna Covid-19 smita.   Einn mannanna var handtekinn grunaður um hótanir og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Maður sem réðst á aðra manneskju í Hafnarfirðinum á sjöunda tímanum í gær var handtekinn á staðnum og er vistaður í fangageymslum lögreglu. Manneskjan sem varð fyrir árásinni var flutt á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar en hún var með sár á höfði.

Maður vopnaður eggvopni reyndi að ræna söluturn í Árbænum á áttunda tímanum í gærkvöldi. Hann ógnaði afgreiðslustúlku en hljóp tómhentur af vettvangi er viðskiptavinir komu að. 

Lögreglan var kölluð til í verslun við Granda um kvöldmatarleytið í gær. Þar var maður grunaður um að hafa stolið matvöru fyrir rúmar 26 þúsund krónur en hann sagðist ekki hafa átt peninga fyrir vörunum. Lögregla skrifaði skýrslu á vettvangi.

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði í Austurbænum (hverfi 108) í gærkvöldi er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum.  Farþegi í bifreiðinni var kærður fyrir vörslu fíkniefna.

Í nótt stöðvaði lögreglan síðan för bifreiðar í Vogahverfinu en 17 ára stúlka sem ók bifreiðinni er grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Málið verður kynnt forráðamönnum og Barnavernd að því er segir í dagbók lögreglunnar. Annar ökumaður var stöðvaður í Grafarholtinu í gærkvöldi grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Hann er án ökuréttinda en hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri af lögreglu fyrir sama brot.  

Maður gistir fangageymslur lögreglunnar en hann var tekinn fyrir ölvunarakstur í Hafnarfirði í gærkvöldi eftir að hafa valdið tveimur umferðaróhöppum um kvöldið. 

Tilkynnt um eignaspjöll í Garðabænum í gærkvöldi en þar voru tveir ungir menn sagðir hafa grýtt bifreið og brotið hliðarrúður, spegil ofl. Þeir voru farnir af vettvangi er lögregla kom þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert