„Í sex mínútur liggur hann á botni laugarinnar“

Banaslys varð í Sundhöll Reykjavíkur á fimmtudag.
Banaslys varð í Sundhöll Reykjavíkur á fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Heiðar Guðnason, faðir manns sem lést í Sundhöll Reykjavíkur á fimmtudag, er ósáttur við yfirlýsingar lögreglu þess efnis að andlát sonar hans megi rekja til veikinda. Maðurinn var úrskurðaður látinn eftir að endurlífgunartilraunir báru ekki árangur, en hann hafði áður legið á botni laugarinnar í sex mínútur.

„Sonur minn var 31 árs gamall, stálhraustur og kenndi sér einskis meins. Ég skil ekki þessi vinnubrögð Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns að fullyrða að um veikindi sé að ræða,“ segir Guðni en hann starfar sjálfur sem lögreglumaður. Þá hafi lögreglan ekki gefið honum sömu skýringar og fjölmiðlum, þ.e. um meint veikindi.

Fékk fréttirnar frá skjólstæðingi sonarins

Sonur Guðna starfaði í geðþjónustu og var með geðfötluðum skjólstæðingi sínum í lauginni, eins og hann gerði jafnan daglega. Guðni segist ekki vita hvar í lauginni skjólstæðingurinn var þegar slysið varð, en að fjölskyldan hafi fyrst fengið fréttirnar frá honum.

„Það kemur eitthvað fyrir í lauginni en það er ekkert staðfest hvað hefur komið fyrir enda engin réttarfarskrufning farið fram enn,“ segir Guðni. Hún muni síðar fara fram til að skera úr um aðdraganda slyssins. 

Hvers vegna lá sonur minn í sex mínútur?

Guðni gerir einnig alvarlegar athugasemdir við sundlaugarvörslu í lauginni. „Það kemur eitthvað fyrir og hann sekkur til botns. Í sex mínútur liggur hann, sonur minn, á botni laugarinnar.“ Hann bendir á að Sundhöll Reykjavíkur sé tiltölulega nýuppgerð. 

„Meðal þess búnaðar sem á að vera í nýjum sundlaugum er tæki sem skynjar hvort það liggur eitthvað hreyfingarlaust á botninum. Ef það er í 15 sekúndur þá eiga að hringja bjöllur,“ segir Guðni. Hann spyrji sjálfan sig hvort ekki hafi verið búið að koma þessum búnaði fyrir eða hvort hann hafi ekki virkað.

Ný útilaug við Sundhöllina var tekin í gagnið í árslok 2017, en upprunalega innilaugin er óbreytt. Hann veit þó ekki hvort sonur hans var í inni- eða útilaug þegar hann drukknaði.

Þá segist hann spyrja sig hvar sundlaugarverðirnir hafi verið í þessar sex mínútur. „Hvaða verkferlar voru brotnir þar? Hvers vegna lá sonur minn á botninum í sex mínútur?“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert