„Hvar varst þú um helgina?“

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Almannavarnir

Slakað var á sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins 13. janúar og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að engin ástæða til að slaka frekar á aðgerðum núna þrátt fyrir fá smit innanlands síðustu daga.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag en einn greindist innanlands í gær. Dag­ana þrjá á und­an greind­ust alls þrjú smit inn­an­lands, ekk­ert á fimmtu­dag, eitt á föstu­dag og tvö á laug­ar­dag. 

Þórólfur segir reynsluna sýna að þegar smit eru fá eigum við hættu á að fá bakslag í faraldurinn. 

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði að ágæt staða faraldursins hér á landi væri vegna aðgerða og hegðunar almennings.

Hann brýndi fyrir fólki að slaka ekki á núna en sagði ákveðið áhyggjuefni að færri hafi mætt í sýnatöku síðustu daga. Hann hafi nýleg dæmi þess að fólk með einkenni hafi verið á ferðinni og það sé ekki nógu gott. Enn fremur séu fregnir af meiri hópamyndun nú en áður.

„Hvar varst þú um helgina?“ sagði Rögnvaldur og brýndi fyrir fólki að vera ekki á ferðinni að óþörfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert