Iðnaðarmenn trufluðu nágranna

mbl.is/Arnþór Birkisson

Tilkynnt var til lögreglu um iðnaðarmenn að störfum í Vesturbænum (hverfi 107) í nótt en nokkur hávaði fylgdi störfum þeirra sem truflaði nágranna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Um þrjú í nótt var síðan tilkynnt um samkvæmishávaða frá íbúð í fjölbýlishúsi í Austurbænum (hverfi 108).

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var lögreglu bent á að töluvert af drasli væri á Vesturlandsvegi ofan við Ártúnsbrekku og það lokaði tveimur af þremur akreinum. Búið var að fjarlægja draslið þegar lögregla kom að skömmu eftir tilkynningu.

Tilkynnt var til lögreglu um rúðubrot í skóla í Grafarvoginum á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Lögreglu var tilkynnt um einstakling sofandi ölvunarsvefni á veitingastað í Breiðholti (hverfi 109) um kvöldmatarleytið í gær. Á tíunda tímanum var síðan tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi. Um var að ræða unglinga og var málið afgreitt með aðkomu forráðamanna. Eins var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Austurbænum (hverfi 108) í gærkvöldi.

Tilkynnt var um umferðaróhapp í Austurbænum síðdegis í gær (hverfi 108). Engin slys á fólki en bifreiðarnar voru óökufærar og fjarlægðar með dráttarbifreið að því er segir í dagbók lögreglunnar. 

Í nótt óskaði síðan leigubifreiðastjóri eftir aðstoð lögreglu í Austurbænum (hverfi 105) vegna einstaklings sem neitaði að greiða fyrir umbeðinn akstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert