Sjö greinst innanlands með breska afbrigðið

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Alls hafa 43 greinst með B.1.1.7, hið svo­kallaða „breska af­brigði“ kór­ónu­veirunn­ar, þar af sjö innanlands. Fjallað var um ýmis afbrigði veirunnar á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Einn greindist með Covid-19 innanlands í gær. Tveir greind­ust með virkt smit í seinni skimun á landa­mær­un­um í gær. Einn bíður niður­stöðu mót­efna­mæl­ing­ar. 

Alma Möller landlæknir sagði að breska afbrigðið væri meira smitandi en ekki hefði verið sýnt fram á að það valdi meiri veikindum. Afbrigðið hefur fundist í 60 öðrum löndum en talið er að bóluefni virki gegn afbrigðinu.

Afbrigði sem fannst fyrst í Suður-Afríku er einnig meira smitandi en það hefur breiðst út um suðurhluta Afríku og hefur greinst í tíu Evrópulöndum. Alma segir að fólk hafi áhyggjur af því að hægt sé að smitast aftur af afbrigðinu og bóluefni virki verr gegn því.

Brasilíska afbrigðið er útbreitt þar í landi og sagði Alma það hafa valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfi Brasilíu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði stöðuna á faraldrinum nokkuð góða en þeir sem greinist á landamærum veikist margir og þurfi aðhlynningu.

Sóttvarnalæknir hvetur fólk að ferðast ekki til útlanda að nauðsynjalausu. Fólk geti smitast erlendis og komist smitað heim.

Þórólfur sér ekki ástæðu til að slaka frekar á sóttvarnaaðgerðum innanlands eins og er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert