Ekki ánægðir með sig eftir nóttina

Útsláttarbúnaður í raforkuveri HS Veitna í Svartsengi gaf frá sér …
Útsláttarbúnaður í raforkuveri HS Veitna í Svartsengi gaf frá sér misvísandi skilaboð í gær, sem leiddi til þess að rafmagnsleysi stóð mun lengur yfir en ella í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seinleg bilanagreining olli því að rafmagnslaust var í Grindavík í rúma sjö tíma í gær að öllu leyti og svo að hluta til. 

Síðustu húsin fengu ekki rafmagn fyrr en upp úr þrjú í nótt, en það var eitt fyrirtæki og íþróttahúsið í Grindavík. Rafmagn var almennt komið á á ellefta tímanum í gærkvöldi en þó nokkur heimili, til dæmis í Hópshverfinu, urðu að bíða fram yfir miðnætti.

„Við erum ekkert svakalega ánægðir með okkur eftir þessa nótt,“ segir Egill Þorsteinn Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna. Fyrirtæki hans annast rafmagnsleiðslur á svæðinu.

Egill Þorsteinn Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna.
Egill Þorsteinn Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna. Ljósmynd/HS Veitur

Fundu ekki hvar bilunin lá 

Egill segir að það hafi tekið hans fólk of langan tíma að komast að því hvar bilunin lægi.

Í fyrstu bárust böndin að spenni í raforkuverinu í Svartsengi en þegar í ljós kom að hann var í lagi, var farið að athuga tenginguna frá Svartsengi til Grindavíkur. Í ljós kom að hún var einnig í lagi og loks varð ljóst að bilunin lægi í dreifistöð í Grindavík. Það tók fjóra til fimm tíma að komast að þeirri niðurstöðu og þá hófst vinna við að laga vandann.

Útsláttarbúnaður í Svartsengi gaf frá sér rangar upplýsingar. „Það truflaði okkur rosalega í þessari bilanagreiningu,“ segir Egill. Það var ekki fyrr en rafmagn náðist á helming bæjarins sem hægt var að átta sig á að bilunin lægi í dreifistöð í bænum.

Leiðinlegt fyrir Grindvíkinga

Egill segir að á næstu dögum verði ráðist í að fara að greina í þaula hvað hafi farið úrskeiðis. Reynt verður að draga lærdóm af þessari atburðarás og þar komi fleiri aðilar að en HS Veitur.

Egill segir ekki að örvænting hafi gripið um sig þegar verið var að laga vandann en fyrst og fremst sé leiðinlegt að Grindvíkingar hafi þurft að fá þetta yfir sig, eftir allt sem hefur gengið á á svæðinu undanfarið. Þar vísar hann trúlega til stöðugra jarðhræringa og hugsanlegs yfirvofandi eldgoss á Reykjanesskaganum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert