Umræðan vekur ótta og vantraust hjá konum

Kristján Oddsson starfaði áður sem framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Kristján Oddsson starfaði áður sem framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Samkvæmt nýjum skimunarleiðbeiningum embættis landlæknis sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn eiga konur sem hafa fengið boð um endurkomu sex mánuðum eftir að hafa greinst með vægar frumubreytingar ekki að fá sérstaka áminningu um endurkomuna. Ef konurnar mæta ekki innan sex mánaða kemur aftur á móti áminning.

Þetta segir Kristján Oddsson, svæðis- og fagstjóri heilsugæslunnar í Hamraborg, spurður út í ummæli Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts, sem er ósátt við að hafa ekki fengið áminningu og sagðist hafa áhyggjur af fleiri konum í svipaðri stöðu. Í hennar máli kom fram að hún hefði fengið svarbréf um endurkomu. Þar hafi staðið að hún myndi fá áminningu eftir sex mánuði um að bóka tíma.

Kristján segir um misskilning að ræða hjá Huldu. Hún eigi ekki að fá aðra áminningu um endurkomuna en í bréfinu sem hún fékk í upphafi. „Síðan er henni er í sjálfsvald sett hvort hún fylgi þeirri leiðbeiningu eða ekki,“ segir hann um bréfið og tekur fram að þetta fyrirkomulag hafi verið fyrir hendi áður en heilsugæslan og Landspítalinn tóku við skimunum af Krabbameinsfélagi Íslands. Um er að ræða nýtt kerfi samkvæmt skimunarleiðbeiningum embættis landlæknis.

Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mikill misbrestur“

Kristján segir heilsugæsluna hafa tvö hlutverk. Annars vegar að taka leghálssýni og sjá um rannsókn þeirra. Hins vegar skal hún í framhaldinu senda konum boð með niðurstöðum og um endurkomu í samræmi við skimunarleiðbeiningar embættis landlæknis. „Það er mikill misbrestur á því að aðilar hafi kynnt sér nýtt skimunarkerfi og öll umræða vegna þess er ekki til neins fallið nema að vekja ótta og vantraust hjá konum vegna skimana,“ bætir Kristján við.

Hann segir hlutverk heilbrigðisyfirvalda vera að búa til eins gott kerfi fyrir konur og mögulegt er varðandi skimanir og núna, frá 1. janúar síðastliðnum, sé í fyrsta skipti í áratugi verið að fara eftir alþjóðlegum leiðbeiningum í þessum málum að tillögum skimunarráðs.

Æskilegt er að viðunandi þátttaka í skimun sé yfir 85%.
Æskilegt er að viðunandi þátttaka í skimun sé yfir 85%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gætu sloppið við eftirlit 

Spurður út í kvartanir kvenna sem hafa farið í keiluskurði yfir því að hafa ekki fengið boð um endurkomu fyrr en eftir fimm ár segir Kristján að langstærstur hluti kvenna sem voru HPV-neikvæðar þurfi ekki að koma aftur fyrr en eftir fimm ár. Varðandi hinar konurnar sem eru í eftirliti verður hringt í þær og þeim boðinn nýr tími fljótlega. Þar verða tekin ný sýni og gerð bæði HPV-rannsókn og frumurannsókn, svokallað Test of Cure. Ef allt greinist í lagi verður þeim ráðlögð skimun í samræmi við skimunarleiðbeiningar og sleppa því við 10 ára eftirlit samkvæmt eldri skimunarleiðbeiningum. Hér er um mikla framför að ræða, að mati Kristjáns.

Aldrei hitt Íslending á ráðstefnum og fundum

Hann vill benda á álit skimunarráðs frá október 2020 en þar kemur m.a. fram að sérþekking á skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum er takmörkuð á Íslandi. Því kemur öll umræða um skimun og hversu margir eru orðnir sérfræðingar eða álitsgjafar um skimun hér á landi honum á óvart. 

Kristján starfaði áður hjá Krabbameinsfélagi Íslands og hefur sótt ráðstefnur og fundi á hverju ári erlendis vegna skimana. „Ég hef aldrei hitt Íslending á þeim en er alltaf rækilega minntur á hversu lítið ég kann um skimun,“ segir hann og furðar sig á umræðunni hérlendis að undanförnu. „Ég hef aldrei lent í umræðu um skimun eins og hér. Þetta þekkist ekki í öðrum löndum. Fólk verður að treysta því að heilbrigðisyfirvöld búi til eins gott kerfi og hægt er. Ég fullyrði að aldrei hafi verið búið til eins gott skimunarkerfi og heilbrigðisyfirvöld hafa nú gert, vandamálið er að of margir hafa ekki kynnt sér það.“

Krabbameinsfélagið.
Krabbameinsfélagið. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland undir viðunandi mörkum

Hann segir Ísland vera langt undir viðunandi mörkum í prósentum varðandi skimun vegna brjóstakrabbameins og nokkrum prósentum vegna leghálskrabbameins. Þar er þátttakan 66 til 67% en alþjóðlegar skimunarleiðbeiningar miða við að viðunandi þátttaka sé 70%. Æskilegt er að hún sé yfir 85%.

Hann segir kerfið langt í frá hafa verið í lagi hérlendis í gegnum árin og nefnir að þátttaka í leghálsskimun hafi farið niður á við síðustu 30 árin. Nýgengi leghálskrabbameins hafi verið óbreytt í 30 ár og dánartíðni farið upp um 170 prósent síðustu 10 ár. „Þetta er ekki að ástæðulausu sem heilbrigðisyfirvöld grípa inn í og breyta. Ef kerfið væri í lagi fyrir íslenskar konur hefði því ekkert verið breytt.“ Hann segir of mikið hafa verið alið á ótta og vantrausti út í nýja kerfið þrátt fyrir að það þjóni konum eins vel og hægt er og mun betur en áður.

Ráðleggingar verið misskildar

Hann bendir á nýlega grein Ástríðar Stefánsdóttur, læknis og dósents í siðfræði við Háskóla Íslands, um skaðsemina sem getur falist í því að skima fyrir krabbameini hjá 40 til 49 ára konum. Ráðleggingar hafi verið misskildar og talið að verið væri að taka gæði frá konum þegar markmiðið hafi verið að varna konum skaða, því skimun á þessu aldursskeiði skili ekki árangri í skilningi skipulegrar lýðgrundaðrar skimunar.

Skimun fyrir krabbameini í leghálsi er ein öflugasta heilsuvernd sem konum býðst og skimunarleiðbeiningar embættis landlæknis hafa það að markmiði að hámarka gagnsemina og lágmarka skaðsemi eins og óþarfa eftirlit, leghálsspeglanir og keiluskurði en keiluskurðir geta valdið aukinni áhættu á fyrirburafæðingum, greinir Kristján frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert