Faðir drengsins sendir frá sér yfirlýsingu

Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV og Jón Ósmann, faðir drengsins.
Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV og Jón Ósmann, faðir drengsins.

Faðir drengs sem Jakob Frímann Magnússon er sakaður um að hafa reynt að koma úr landi með liprunarbréfi utanríkisráðuneytisins gagnrýnir fréttaflutning DV. Hann hefur sent frá sér yfirlýsingu og segir fréttaflutninginn ekki hjálpa syni sínum að láta sár sín gróa. 

Björn Þorfinns­son og Erla Hlyns­dótt­ir, rit­stjóri og aðstoðarrit­stjóri DV, sögðu í fyrri yfirlýsingu Flokk fólks­ins hafa beitt fyr­ir sig barni til þess að reyna að kom­ast hjá því að frétt um Jakob Frí­mann Magnús­son, odd­vita flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi, myndi birt­ast.

Í yf­ir­lýs­ing­u sem þau birtu á DV segja Björn og Erla að eft­ir sam­tals ald­ar­fjórðungs reynslu af blaðamennsku sé það sem þau hafi gengið í gegn­um í síðustu viku „for­dæma­laust“.

Sá sig tilneyddan til að stíga fram

„DV hefur að undanförnu farið mikinn í máli er varðar forræðisdeilur í fjölskyldu minni. Sérstaklega hefur miðillinn reynt að gera hjálpsemi Jakobs Frímanns Magnússonar í garð sonar míns tortryggilega, auk þess að virða hlið okkar feðga í þessu máli að vettugi. Ég sé mig því tilneyddan að stíga fram og koma sannleikanum að,“ segir faðirinn, Jón Ósmann, í yfirlýsingunni.

Hann segir þá að staðreyndir málsins séu að ferðaheimild hafi verið fyrir hendi þegar liprunarbréfið var gefið út og að aldrei hafi staðið til að nota það án ferðaheimildar. Hann segir þá móðir drengsins hafa fengið liprunarbréfið í hendurnar á sama tíma og hann sjálfur.

„Það þurfti engin sérstök sambönd til að fá liprunarbréf. Hérlendis voru um 2.000 liprunarbréf gefin út á skömmum tíma vegna Covid lokaðara landamæra út um allan heim. Bréfið var aldrei notað og ferðin aldrei farin, það stendur því ekkert eftir af þessari frétt.“

Drengnum hafi sárnað

„DV hafði staðreyndir málsins undir höndum áður en fréttin fór í loftið en skrifaði hana samt alfarið byggða á túlkun móður drengsins. Sonur minn, sem er þolandi í málinu og að verða 16 ára. Honum finnst afar sárt að DV skyldi ekki leita álits hans á fréttinni sem snertir persónu hans á mjög viðkvæman hátt.

Jón segir að syni sínum hafi fundist afar sárt að DV skyldi ekki hafa leitað hans álits á fréttinni sem snertir persónu hans á mjög viðkvæman hátt. „Hann reyndi að koma sinni sögu af erfiðum samskiptum við móður sína í þessu máli á framfæri við blaðamann DV en á hann var ekki hlustað,“ segir í yfirlýsingunni.

Segir þetta harmleik sem ekki átti erindi í fjölmiðla

Faðirinn segir að um sé að ræða viðkvæmt fjölskyldumál sem snerist upp í harmleik sem feðgarnir hefðu aldrei rifjað upp ótilneyddir, hvað þá opinberlega. „ Þetta var ömurlegt mál sem endaði með því að drengurinn minn hljópst að heiman frá móður sinni og lögreglan fól bróður mínum að gæta hans þar til ég kæmi til landsins.

„Jakob sem fjölskylduvinur stóð þétt við bakið á syni mínum þegar aðstæður hans voru hvað erfiðastar á heimili móður hans. Mest var um vert að gaf hann syni mínum von þegar allt var að hrynja í lífi hans.“

„Þess má geta að ég hef aldrei talað við Björn ritstjóra DV en einu sinni við Erlu blaðamann og þá á góðum nótum áður en fréttin birtist. Ég sendi þessu fóki svo pósta þar sem ég bað þau sem faðir að láta kyrt liggja.“

„Við feðgar sendum vinsamlega pósta á DV, höfum ekkert að fela og birtum þessa pósta ef þarf. Kannski er þetta of mikið áreiti fyrir blaðamenn en eiga þeir ekki að hlusta á báðar hliðar máls?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert