Dró sér 4,7 milljónir af reikningi ÍR

Héraðssaksóknari hefur höfðað mál gegn fyrrverandi framkvæmdastjóra ÍR, fyrir peningaþvætti sem hljóðar alls upp á 4.720.611 krónur af fjármunum félagsins á árunum 2018 og 2019, með greiðslu reikninga í sína þágu, millifærslum af bankareikningi félagsins og umboðssvikum.

Ákærði er sakaður um að hafa nýtt fjármunina meðal annars í golfferð upp á 350.870 krónur, golfbúnað, matvæli og að því er virðist ýmiss konar viðhald en 167.610 krónum eyddi hann í versluninni Járn og gler og 159 þúsund krónum í Stillingu. 

Millifærði á sjálfan sig og notaði kreditkort félagsins í eigin þágu

Í A-lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa dregið sér samtals 3.161.623 krónur af fjámunum félagsins í 15 tilvikum á árunum 2018 og 2019, með greiðslu reikninga í sína þágu og millifærslum út af bankareikningi félagsins inn á eigin bankareikning.

Síðari liður ákærunnar snýr þá að umboðssvikum framkvæmdastjórans fyrrverandi með því að hafa á árinu 2019 misnotað aðstöðu sína með því að skuldbinda félagið, þegar hann notaði kreditkort félagsins í 28 skipti í heimildarleysi til kaupa á vörum og þjónustu til eigin nota og eftir atvikum í þágu annarra, samtals að fjárhæð 1.558.979 krónur, en fjárhæðirnar voru síðar skuldfærðar af bankareikningi félagsins hjá Landsbankanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert