Skoða að setja viðvörunarskilti eftir að maður fauk

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir fyrirtækið skoða hvort tilefni sé til þess að setja upp viðvörunarskilti við og á girðingu við Reykjavíkurflugvöll.

Mbl.is greindi frá því fyrr í vikunni að maður hafi fokið af gang­stétt niður á götu vegna loftstreym­is úr hreyfli Bomb­ar­dier Global 5000-þotu rétt fyr­ir flug­tak á Reykja­vík­ur­flug­velli.

Í skriflegu svari við fyrispurn mbl.is segir Guðjón að ekki sé til þess vitað að tilkynning um atvik af þessu tagi hafi borist áður til Isavia, það sé þó hugsanlegt að það séu einhver gömul dæmi um það.

Vélin er af gerðinni Bombardier Global 5000.
Vélin er af gerðinni Bombardier Global 5000. Skjáskot

Ekki talin hætta fari vegfarendur ekki upp að girðingunni

Ekki fékkst svar við fyrirspurn mbl.is um hvort að talið sé að bil milli enda flugbrautar og grindverksins þar sem maðurinn hafði staðið fyrir utan sé of lítið.

Guðjón segir þó að ekki sé talin hætta á að vegfarendur, sem fara framhjá girðingunni án þess að fara alveg upp að henni, verði fyrir viðlíka áhrifum eins og í þessu tilviki.

„Þotur af þessari stærð, sem eru jafn kröftugar og sú sem hér um ræðir, eru ekki algengar á Reykjavíkurflugvelli en koma stöku sinnum. Verið er að skoða hvort tilefni sé til að setja upp viðvörunarskilti við og á girðinguna af þessu tilefni,“ skrifar Guðjón.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert