11 ára barni neitað um aðgang í strætó

Unglingar á Lækjartorgi taka strætó.
Unglingar á Lækjartorgi taka strætó. mbl.is/Hari

Andrea Sigurðardóttir segir frá raunum bróðursonar síns og félaga hans þegar strætóbílstjóri neitaði þeim aðgangi í vagninn því þeir hafi litið út fyrir að vera eldri en 11 ára. Bílstjórinn taldi að þeir ættu að greiða fyrir ferðina en börn 11 ára og yngri fá frítt í strætó.

Þetta gerðist fyrr í sumar þegar strákarnir áttu að taka strætó heim eftir íþróttanámskeið þegar foreldrarnir voru í vinnu. Foreldrar bróðursonar Andreu vinna báðir þannig störf að það er ekki alltaf sem þau geta skotist úr vinnunni.

„Strætóbílstjórinn vísar þeim á dyr því hann trúði ekki að þeir væru yngri en 12 ára. Þrátt fyrir að þeir líta ekkert út fyrir að vera eldri en þeir eru, bara mjög venjulegir 11 ára drengir. Sem betur fer er strákurinn með síma og gat hringt í pabba sinn og sem betur fer gat pabbi hans farið frá í þessu tilfelli og sótt þá,“ segir Andrea í samtali við mbl.is.

„Það er varla hægt að ætlast til þess að börn á þessum aldri gangi með vegabréf á sér sem eru venjulega einu persónuskilríki sem krakkar á þessum aldri eiga en á næstu æfingu var drengurinn sendur með vegabréf svo hann kæmist nú örugglega heim.“

Tekið fyrir á stjórnarfundi Strætó

Andrea sagði frá atvikinu á Twitter og hefur það greinilega skilað sér því Alexöndra Briem, borgarfulltrúi Pírata, svaraði tísti Andreu. Hún segir að málið hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi Strætó og segir hrikalegt að heyra af málinu.

„Það er frábært að þetta hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi en það er nauðsynlegt að tryggja það að þetta komist til skila til þeirra sem að veita þjónustuna,“ segir Andrea. 

„Þetta myndi örugglega ekki gerast í langflestum tilvikum en þetta á bara alls ekki að gerast. Svo veltir maður því fyrir sér hvort bílstjórar eigi að vera einhverir dyraverðir. Erlendis þekkist það að fólk fer inn og út á eigin ábyrgð og svo eru eftirlitsaðilar sem koma inn í vagnana og kanna hvort allt sé í standi.“

Börn eigi að njóta vafans

Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, þekkti málið vel þegar blaðamaður hafði samband við hann. Hann segist vera búinn að heyra í föður annars stráksins. Þeir hafi átt mjög gott spjall og faðirinn hafi verið þakklátur fyrir símtalið.

Hann segir að ekki hafi enn verið rætt sérstaklega við bílstjórann en búið sé að gera mannauðsstjóra viðvart um atvikið.

„Það eru skýr skilaboð frá Strætó um það að börn eigi að njóta vafans því það er frítt fyrir börn 11 ára og yngri. Það er alveg skýrt og það eiga allir vagnstjórar að vita þetta. Ef einhver segist vera 11 ára, þá á hann að njóta vafans. Og það á alls ekki að meina þeim aðgang. Þetta fer gegn þeirri nálgun sem við höfum hjá Strætó,“ segir Guðmundur.

„Ég veit að mannauðsstjórinn okkar er meðvitaður um þetta og við ætlum aftur að ítreka þetta við alla starfsmenn. Þetta er því miður ekki í eina skiptið sem svona kemur upp á.“

Guðmundur segir að verið sé að teikna upp lausnir fyrir krakka sem eru 11 ára og yngri sem muni vonandi kom í veg fyrir svona leiðinleg tilvik. Til standi að útfæra ókeypis kort fyrir börn sem þau geti sýnt bílstjórum og sannað aldur sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert