Alsæla í Búdapest eftir jafnteflið

Mikil stemning var á áhorfendapöllunum á leik Ungverja og Frakka …
Mikil stemning var á áhorfendapöllunum á leik Ungverja og Frakka í Búdapest í dag. AFP

Gríðarleg stemning er í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, um þessar mundir vegna 1:1-jafnteflis Ungverja við Frakka á Evrópumótinu í knattspyrnu í dag. Jóhann Einarsson Berg er staddur í borginni og hann fylgdist með leiknum á risaskjá í stórum almenningsgarði í Búdapest.

„Þetta er eiginlega bara geggjað. Þeir virðast bara vera mjög ánægðir. Þetta er eins og þegar Ísland fór á HM, það bjuggust allir við að tapa til dæmis á móti Argentínu en að fá jafntefli var bara eins og sigur. Eftir fyrsta markið var allt geggjað. Það var bara eins og sigur að skora á móti Frökkum,“ segir Jóhann.

Mikil bjartsýni ríkir í Ungverjalandi eftir þennan leik. Jóhann telur að það hjálpi mjög að leikurinn hafi verið spilaður á heimavelli og að það hafi haft mikil áhrif á liðið.

„Eftir að þeir sáu hvaða riðli þeir lentu í var bjartsýnin ekki mikil en eftir þetta jafntefli á móti Frakklandi er mun meiri bjartsýni.“

Gríðarlegur fjöldi áhorfenda voru á leiknum. Völlurinn í Búdapest er …
Gríðarlegur fjöldi áhorfenda voru á leiknum. Völlurinn í Búdapest er sá eini sem spilað er á Evrópumótinu, þar sem hámarksfjöldi áhorfenda er leyfður. AFP

Enginn með grímu

Hann segir bólusetningar gegn kórónuveirunni ganga vel í Ungverjalandi og ekki sé grímuskylda í landinu.

„Það er enginn með grímu en til þess að fara á leikinn þarf að hafa bólusetningavottorð, en til þess að vera á svæðum með stórum skjá þarftu það ekki. Bólusetningarhlutfallið er frekar hátt miðað við í Evrópu af því þeir fengu mikið af spútnik og öðrum bóluefnum. Þegar ég kom hérna fyrir mánuði beið ég í tvo daga til þess að fá bólusetningu.“

Mikil stemning var á Szabadsag torgi þar sem Jóhann sat …
Mikil stemning var á Szabadsag torgi þar sem Jóhann sat og horfði á leikinn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert