„Þjóðverjinn kann þetta“

Klísturfélagið er prúðbúið í sérsniðnum jökkum.
Klísturfélagið er prúðbúið í sérsniðnum jökkum. Ljósmynd/Aðsend

„Stemmningin er stórgóð, þetta er flottasta mót sem við höfum farið á hingað til. Þjóðverjinn kann þetta,“ segir Húsvíkingurinn Sigurður Helgi Illugason sem staddur er í München í Þýskalandi þar sem Ísland mætir Makedóníu í síðasta leik sínum í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handbolta í dag.

Sigurður Helgi er staddur í München ásamt fræknum hópi Húsvíkinga. Þeir kalla sig gjarnan Klísturfélagið, en Sigurður Helgi og Sigmundur Hreiðarsson eru á sínu fjórða handboltastórmóti í röð.

„Við höldum okkur við handboltann. Það er meira „aksjon“ í gangi og við fáum meira fyrir peninginn, fleiri mörk fyrir hverja krónu,“ segir hann léttur í bragði.

Sigurður Helgi segir Sérsveitina, nýja stuðningssveit handboltalandsliðanna, standa sig gríðarlega vel í að halda uppi stemmningu fyrir leikina. Aðspurður segist Sigurður Helgi vera með örlítinn fiðring í maganum fyrir leikinn gegn Makedóníu.

„Maður krossar fingur og vonar að hann gangi vel.“

Leikur Íslands og Makedóníu er hreinn úrslitaleikur um það hvort liðið kemst áfram í milliriðil heimsmeistaramótsins. Eftir sigur Spánverja á Makedóníumönnum í gær dugir Íslandi jafntefli í leik dagsins til þess að markmiðið náist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert