„Ógeðslega sætt“

Ægir Þór einbeittur á svip í leiknum í kvöld. Kirstófer …
Ægir Þór einbeittur á svip í leiknum í kvöld. Kirstófer Acox er númer 19. Ljósmynd/FIBA

Ægir Þór Steinarsson var sérlega ánægður með baráttuna í fráköstunum þegar Ísland lagði Holland að velli 79:77 í undankeppni HM í körfuknattleik í kvöld. 

Ægir skoraði 15 stig í leiknum og gaf sex stoðsendingar. Hann skoraði síðustu stig Íslands á lokakaflanum og hjó þá á hnútinn því nokkrar sóknir á undan höfðu verið kæruleysislegar. Ægir segir að íslenska liðið þurfi að læra betur að klára dæmið þegar það er í góðri stöðu seint í leikjum. 

„Þetta var ógeðslega sætt,“ sagði Ægir þegar mbl.is náði tali af honum í kvöld. Ísland náði níu stiga forskoti þegar 90 sekúndur voru eftir en Hollendingar náðu að saxa á forskotið á lokamínútunni.

 „Fyrir fram hefðum við verið ánægðir með tveggja stiga sigur en maður er með smá óbragð í munninum yfir því að ná ekki að loka leiknum fyrr á lokamínútunni.  Við getum gert betur í því að koma boltanum í leik og komast á vítalínuna undir restina. Sem er venjulegt í þeirri stöðu sem við vorum í. En við erum ógeðslega ánægðir með að taka það skref að vinna lið í þessum gæðaflokki og gera það á útivelli. Við erum mjög sáttir,“ sagði Ægir en Hollendingar komust í lokakeppni EM sem átti að vera á þessu ári en var frestað um eitt ár. Liðið er því hærra skrifað en það íslenska ef miðað er við gengi liðanna allra síðustu ár. 

Ægir kominn á ferðina í leiknum gegn Hollandi í kvöld. …
Ægir kominn á ferðina í leiknum gegn Hollandi í kvöld. Þá er ekki heiglum hent að elta hann uppi. Ljósmynd/FIBA

Eins og Ægir nefnir þá var vandræðagangur á íslenska liðinu á lokamínútunni þegar eftirleikurinn hefði getað verið auðveldur. Blaðamaður spyr hvort landsliðsmennirnir þurfi alltaf að halda fólki í spennu? „Það verður að vera spenna í þessu. Það er partur af þessu,“ sagði Ægir léttur en bætti við.

„Við höfum átt í erfiðleikum í gegnum tíðina með að klára dæmið í leikjum þar sem okkur gengur vel. Ég held að næsta skref hjá okkur sé pottþétt að læra að loka leikjunum fyrr. Eins og það að kasta boltanum inn og komast á vítalínuna á lokamínútum ætti að vera „basic“ atriði.“

Meðbyr fyrir leikinn gegn Rússlandi

Íslensku leikmennirnir könnuðust við slatta af leikmönnum í hollenska hópnum. Ísland og Holland höfðu ekki mæst síðan 2015 en tveir í liðinu leika í sömu deild og Ægir á Spáni. Einnig eru sjö leikmenn í sameiginlegri deild Hollands og Belgíu þar sem Elvar Már Friðriksson spilar. 

„Já ég spilaði til dæmis á móti einum þeirra á Spáni rétt fyrir landsleikinn. Þeir eru tveir sem spila í sömu deild og ég. Það eru fínir leikmenn. Við spiluðum við Holland fyrir Eurobasket 2015 og við gátum rifjað upp hverjir hefðu verið þá. Leikmenn Hollands eru margir hverjir miklir íþróttamenn og sterkir í vörn.“

Stemningin í íslenska hópnum var með besta móti í kvöld …
Stemningin í íslenska hópnum var með besta móti í kvöld eftir góð úrslit. Ljósmynd/FIBA

Ferðalagið til Rússlands verður öllu skemmilegra fyrir íslenska hópinn eftir þennan sigur en Íslendingar halda þangað á morgun og mæta Rússlandi á mánudaginn. Rússar unnu Ítali í St. Petersburg í dag 92:78. 

„Já heldur betur. Eins og alltaf þá gæti komið góður meðbyr inn í leikinn á móti Rússum með þessum úrslitum. Það gæti orðið öðruvísi leikur en ég tel að við ættum að einbeita okkur að sömu hlutum. Við fráköstuðum vel og ég tel að við höfum gert mjög vel með að ná því. Það býr til mikið fyrir okkur. Þá náum við að keyra fram og finna opnanir. Auk þess gerðum við vel í sóknarfráköstum. Strákarnir náðu oft puttum á boltann og fyrir vikið fengum við kannski annað tækifæri til að skora í sömu sókninni. Það skiptir öllu máli í þessu að við spilum þessa agressívu vörn sem við erum þekktir fyrir og ná að ljúka því með frákasti,“ sagði Ægir Þór Steinarsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert