Kom í land eftir 48 ár á sjónum

Eftir tæpa hálfa öld á sjó hefur Kristinn Gestsson söðlað …
Eftir tæpa hálfa öld á sjó hefur Kristinn Gestsson söðlað um og starfar nú hjá Hampiðjunni við sölu veiðarfæra. mbl.is/Hari

Kristinn Gestsson var um áratugaskeið einn aflasælasti skipstjóri landsins. Þegar Þerney var seld úr landi um nýliðin áramót kom hann í land en selur nú veiðarfæri Hampiðjunnar um allan heim. Hann kann lífinu í landi betur en hann þorði að vona.

„Pabbi var skipstjóri fyrir vestan á Suðureyri við Súgandafjörð og það var mesta ævintýrið að fá að fara túra með honum á línubátnum. Ég hef verið átta eða níu ára þegar það var og varð reyndar svakalega sjóveikur en það gerði ekkert til. Þetta var alveg toppurinn.“

Þannig lýsir Kristinn fyrstu snertingu sinni við sjómennskuna sem síðar átti eftir að verða starfsvettvangur hans í um hálfa öld.

„Svo þegar ég fermdist þá fór ég á vertíð. Þannig var það á þessum tíma. Þá læknaðist líka sjóveikin enda túrarnir lengri og fleiri og þetta vandist vel. Svo fór ég á Núp og tók þaðan landspróf. Á þessum tíma var verið að stofna Menntaskólann á Ísafirði og fyrsti skólameistari hans, Jón Baldvin Hannibalsson, vildi fá unga menn af svæðinu til námsins. Hann lagði að mér að koma í skólann en ég hafði þá ákveðið að fara á sjóinn.“

Varð skipstjóri 24 ára

Kristinn var elstur sinna systkina og á þessum árum var faðir hans að ljúka námi frá Stýrimannaskólanum. Hann tók sér því frí frá námi og sótti sjóinn til að létta undir með heimilinu. En hann fór svo sama veg og faðir hans og lauk prófi frá skólanum árið 1975, þá tvítugur að aldri.

„Ég réð mig þá á Júlíus Geirmundsson. Fjórum árum síðar var ég ráðinn skipstjóri á sama skipi sem þá hafði fengið heitið Bergvík KE.“

Kristinn er meðal yngstu manna sem svo ungum hefur verið falið að taka við skipstjórn á svo stóru skipi. Hann lýsir reynslunni þó sem miklu ævintýri fyrir sig.

„Þetta var mikið verkefni fyrir ungan mann og lengi vel var ég meðal yngstu manna í áhöfninni. Það er mikil ábyrgð að vera skipstjóri og á honum hvílir alltaf skyldan um að fiska vel.“

Hann segist minnast þess með bros á vör þegar hann rifjar upp nokkrar af þeim ferðum sem leiddu hann og áhöfn hans í erlendar hafnir.

„Í mörgum þessara ferða var ég með góðan bátsmann, eldri reyndan mann sem reyndist mér traustur. Þegar lóðsinn kom um borð þegar við vorum komnir inn að höfn áttu þeir það til að ganga rakleitt til þess gamla og kynna sig fyrir honum. Þeir töldu eðlilega að hann væri skipstjórinn. Þegar hann benti þeim á að tala við mig ráku þeir oft upp stór augu.“

Kristinn segir mjög gaman að hafa það verkefni nú með …
Kristinn segir mjög gaman að hafa það verkefni nú með höndum að selja þau veiðarfæri sem hann hafði svo lengi notast við á veiðum. mbl.is/Hari

Bilanir settu strik í reikninginn

Kristinn segir að oftast hafi gengið vel að fiska en fyrstu túrarnir á Bergvíkinni hafi reynt á. Þar hafi ekki verið við sig eða áhöfnina að sakast heldur hafi komið upp bilanir í skipinu sem ollu erfiðleikum. Það hafi hins vegar ekki elt þá lengi og fljótlega hafi aflinn orðið góður.

Hann var skipstjóri á Bergvíkinni í áratug en réð sig þá á frystitogarann Aðalvík sem áður hafði heitið Drangey. Svo hafi hann ráðið sig sem stýrimann í þrjú ár á Hrafn Sveinbjarnarson.

„Það voru oft langir túrarnir á frystitogurunum. Þá voru þetta kannski þrír túrar í röð og svo einn í frí. Seinna breyttist það í tvo túra á móti einum í landi en í seinni tíð hefur þetta svo færst í það horf að vera einn túr á móti einum í frí. Það er mun skaplegra.“

Færa miklar fórnir á hafinu

Hann segir að sjómannsfjölskyldur hér á landi færi miklar fórnir í kringum starfið á sjónum.

„Þetta eru miklar fjarverur frá fjölskyldu þó það hafi skánað á síðustu árum. Ég sé það kannski helst í gegnum barnabörnin í dag hvað ég fór á mis við mikið öll þessi ár. Maður áttaði sig ekki á því þá, en þessar fórnir eru sjómenn enn að færa í dag.“

Árið 1994 réð Kristinn sig sem skipstjóra á Snorra Sturluson. Þar kynntist hann Ægi K. Franzsyni sem lengst af var skipstjóri á móti honum á Þerney eða allt frá árinu 2006 og þar til skipið var selt í fyrrahaust.

„Það var farsælt og langt samstarf og þótt við værum alltaf á sjónum til skiptis þá tókst með okkur mikil og góð vinátta sem að sjálfsögðu varir enn þótt við séum báðir komnir í land.“

Komist hjá meiriháttar áföllum

Kristinn segist hafa notið þeirrar gæfu að hafa komist hjá öllum meiriháttar áföllum á sínum ferli og engin stórslys orðið hjá áhöfnum hans eða þeim skipum sem hann hefur stýrt.

„Ég er þakklátur fyrir hvað þetta hefur gengið vel. Eitt sinn skall hurð nærri hælum. Þá vorum við í Smugunni og einn skipverjinn féll fyrir borð þegar við vorum að draga trollið út. Menn voru fljótir að átta sig á hvað hafði skeð og köstuðu björgunarhring út til hans. Þá vildi einnig svo heppilega til að léttabáturinn hékk í krananum utan á skipinu og því var hægt að komast mjög fljótt til hans. Við vorum ekki í neinni aðstöðu til að hreyfa skipið enda veiðarfærin komin fyrir borð. En við náðum honum um borð. Hann var orðinn verulega kaldur en eftir gott bað og þurr föt var hann fljótt kominn á vaktina aftur.“

Frá síðustu löndun Þerneyjar á Íslandi, í nóvember á síðasta …
Frá síðustu löndun Þerneyjar á Íslandi, í nóvember á síðasta ári. mbl.is/Árni Sæberg

Hálfur milljarður um borð

Spurður út í aflabrögðin segist hann ekki hafa tölu á þeim tonnum sem hann hafi ásamt áhöfnum þeirra skipa sem hann stýrði dregið úr sjó en hann man þó enn verðmætasta farminn.

„Það var minnir mig 2014. Þá komum við úr Barentshafinu með afla sem var að verðmæti hálfur milljarður króna. Það var mjög góð tilfinning. Þetta var fullt skip af þorskflökum. Að baki þessu lá svakaleg vinna og samstillt átak áhafnarinnar en það var gaman að landa þessu.“

Árið 2005 hugsaði Kristinn sér til hreyfings og skráði sig í nám og var langt kominn með viðskiptafræðina á Bifröst.

„Ég á í raun bara ritgerðina eftir til BS-prófs. En þá kom hrunið. Þá verðféll þessi menntun hressilega en fiskurinn varð miklu verðmætari en áður. Ég hélt því bara áfram á sjónum.“

Hann segist ekki hafa velt því mikið fyrir sér hvort hann ætti að ljúka náminu en hann segir að það hafi nýst sér á margan hátt.

„Konan sá mig reyndar varla í þrjú ár. Ég sótti tíma þegar ég var í landi en svo var maður fram á nótt úti á sjó að læra og skila verkefnum. Það var töluvert átak en ég hafði gaman af því á þessum tíma.“

Ákvörðun um að koma í land

Þegar fréttir bárust af því að HB Grandi hefði selt Þerney úr landi ákvað Kristinn að söðla um. Nú væri hann búinn að stíga ölduna nógu lengi.

„Ég ákvað að klára síðasta túrinn og svo ætlaði ég að taka mér smá frí. En þá fréttist af því að Hampiðjan væri að leita að manni í veiðarfærasöluna og ég setti mig í samband við forstjórann. Ég var svo ráðinn og stökk eiginlega beint í land og í þau verkefni,“ segir Kristinn sposkur á svip.

Hann segir mjög gaman að hafa það verkefni nú með höndum að selja þau veiðarfæri sem hann hafði svo lengi notast við á veiðum. Reynslan af þessum búnaði komi sér vel og þá sé hann í samskiptum við þá sem enn sækja gull í greipar Ægis.

„Þetta er mjög skemmtilegt og maður ætti að geta talað af einhverri þekkingu um veiðarfærin. Þetta eru oft og tíðum mikil og dýr tæki. Dýrustu trollin kosta kannski 30 milljónir króna. Það er ekki mikill peningur þegar litið er til þeirra verðmæta sem notkun þeirra getur skilað og þau endast von úr viti en vissulega er það stór ákvörðun fyrir útgerðarfyrirtækin þegar þau endurnýja þennan búnað.“

Kristinn segist ekki sjá eftir sjómannslífinu og hann hafi komið í land á réttum tíma.

„Þetta var komið gott. Ég hélt að það tæki meiri tíma að venjast lífinu uppi á landi en það hefur alls ekki orðið reyndin. Þegar ég fer um borð í skip í dag er ég feginn að halda þaðan aftur áður en haldið er til veiða en ég hugsa hlýlega til minninganna sem ég á af sjónum.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »