Vilja verða sterkur hluti af bæjarfélaginu

Ingólfur Snorrason, hér ofan í gryfjunni í Þorlákshöfn, segir bleikjuna …
Ingólfur Snorrason, hér ofan í gryfjunni í Þorlákshöfn, segir bleikjuna spennandi kost.

Hópur manna stendur að baki fyrirtækinu Landeldi ehf., en þeir hyggjast setja á fót lax- og bleikjueldi í Þorlákshöfn á næstu misserum. Ingólfur Snorrason, forsvarsmaður hópsins, segir í samtali við 200 mílur að mikil tækifæri leynist í bleikjueldi og að Þorlákshöfn eigi sér bjarta framtíð þrátt fyrir nýleg áföll í atvinnulífinu.

„Stöðinni verður skipt upp í aðskilin eldissvæði, þannig að við getum verið með bæði lax og bleikju. Áætlunin eins og hún lítur út í dag, gerir ráð fyrir að eldið skiptist þannig til helminga. Framtíðarþróunin getur svo hallast í aðra hvora áttina, en óneitanlega erum við mjög spenntir fyrir markaðsumhverfi bleikjunnar eins og það er í dag,“ segir Ingólfur um fyrirhugað eldi. Bendir hann á að markaður fyrir bleikju sé tiltölulega nýr á alþjóðavísu og vaxandi.

„Framleiðslan er rúm þrettán þúsund tonn, sem er svipað og laxinn var í kringum árið 1980. Við sjáum sóknarfæri í þeim markaði og þá sýnist okkur verðþróunin vera mjög jákvæð,“ segir Ingólfur, en þá eru kostir bleikjunnar ekki upp taldir með öllu.

„Í eldi er bleikjan spennandi kostur, hún er harðger, hraðvaxta við kaldar aðstæður og nýtist vel í eldisrými. Við viljum því halda þessum möguleika vel opnum.“

Námugryfjan séð úr lofti, þar sem fyrirhugað er að eldið …
Námugryfjan séð úr lofti, þar sem fyrirhugað er að eldið verði.

Fleiri afurðir leynist í eldinu

Hann segist oft spurður hvers vegna fyrirtækið ætli að ráðast í fiskeldi á landi.

„Við höfum tekið svolítið staðfasta ákvörðun um að staðsetja okkur á þessum væng geirans, að vera uppi á landi og nýta okkur þá kosti sem strandeldi gefur okkur. Við höfum þá meiri stjórn á því sem við erum að gera og erum um leið lausir við ýmsa umhverfisþætti sem hafa verið að hrjá eldi úti á sjó. Þeir þættir eru allir meira og minna þekktir, og eins og nýlegar fréttir sýna þá fylgja því töluverðar áskoranir. Það þarf mikla og góða skipulagningu svo að framleiðslan sé í sátt við markaðinn en sömuleiðis umhverfið,“ segir Ingólfur og bætir við að fleiri afurðir geti leynst í eldi á landi.

„Til að koma í veg fyrir slysasleppingar frá stöðinni verða settar upp gildrur, ásamt síunarútbúnaði á útrennsli, til að aðskilja úrgang frá eldisvökvanum. Úrgangurinn fer ekki í sjóinn og ekki heldur á haugana. Fyrst við erum á annað borð að fara í þetta þá erum við mjög hrifnir af þeim tækifærum sem leynst gætu í rannsóknarvinnu á útfallinu. Í seyrunni gætu falist efnafræðileg tækifæri og okkur langar að vinna með öðrum fagaðilum til að kanna möguleikana þar. Annars gætum við vel nýtt hana í áburðarframleiðslu.“

Ekki að elta tískustrauma

Í það minnsta er ljóst að útfall eldisins verður síað.

„Í dag er annar tími en var á árum áður, skítur er ekki endilega bara skítur. Það er fullt af næringarefnum í seyrunni, til dæmis fosfór, sem gæti reynst vel á ýmsum stöðum þarna í nærumhverfinu.“

Ingólfur segir þetta til marks um það hugarfar sem hópurinn hafi á leið inn í þetta stóra verkefni.

„Við erum að setja verkefnið upp á þeim forsendum að við munum stilla það í samræmi við þær væntingar og óskir sem við höfum. Þannig erum við ekki að elta neina tískustrauma í hugmyndavinnunni og viljum hanna þetta út frá því að við nýtum okkur alla þá kosti sem til staðar eru, á sama tíma og við erum í algjörri sátt við umhverfið,“ segir hann.

„Oft fer umræðan um þessa umhverfissátt fram í tali um krónur og aura. Við höfum tekið eftir því að umhverfisþættir eru metnir eftir því hvort þeir eru arðbærir fjárhagslega eða ekki. En þarna erum við ekki að hugsa út frá þeim forsendum, heldur umhverfisforsendum; hvað við viljum gera og hvað við viljum skilja eftir okkur. Ég tel að okkur beri svolítil skylda til að hugsa svona, þegar klukkan er korter í 2020, þá eiga fyrirtæki sem eru að nýta náttúrulegar auðlindir að hugsa um þessa þætti.“

Tölvuteikning af fyrirhuguðu eldi við sjávarsíðuna í Þorlákshöfn. Framkvæmdir gætu …
Tölvuteikning af fyrirhuguðu eldi við sjávarsíðuna í Þorlákshöfn. Framkvæmdir gætu hafist á fyrri hluta næsta árs.

Ísland eigi að vera í efsta sæti

Í þessu samhengi skipti vörumerkið Ísland líka máli.

„Ég er nú ef til vill svo heppinn að ég hef átt samskipti við Íslandsstofu, bæði í þessu verkefni og öðrum sem ég hef verið að vinna að, og sem leikmaður, þegar maður rýnir í þau hugrenningatengsl sem fylgja vörumerkinu Íslandi, þá vill maður styðja við þá þróun vörumerkisins að Ísland sé í forgrunni í umhverfisumgengni, ef svo má segja. Og að þessi stuðningur sé meðvitaður á þann veg, að við séum bæði að halda uppi hróðri þessarar ímyndar og einnig að við séum ekki að tengja okkur við ýmsar vafasamar aðferðir sem auðveldað geta fólki að segja „Já, Ísland er í fremstu röð, en þar er þó pottur brotinn víða.“ Þetta skiptir gríðarlegu máli, það er mikið rætt um þetta í dag en hugsaðu þér hvar umræðan verður eftir tíu til fimmtán ár,“ segir Ingólfur við blaðamann.

„Umhverfismál verða sífellt mikilvægari og það þarf ekki að líta lengra en til umhverfisvitundar ungs fólks í dag. Þetta fólk reynir að afla sér upplýsinga um meðferð umhverfisins við vinnslu þeirra vara sem það kaupir, og Ísland eftir fimmtán ár ætti að vera algjörlega í efsta sæti hvað þetta varðar. Við höfum tæknilega þekkingu, hátt menntastig og allar auðlindir til að geta verið á þeim stað í alþjóðlegum samanburði. Við viljum leggja okkar af mörkum til að ná þeim áfanga, með því að keyra á þessari áætlun sem við höfum.“

Framkvæmdir gætu hugsanlega hafist á fyrri hluta árs 2019.

„Þetta tekur allt smá tíma. Og þetta má líka alveg taka tíma. Ég held að það sé mikilvægt að líta til þess í þróunarferlinu, að við tökum þetta skref fyrir skref og höfum góða yfirsýn. Þannig getum við nýtt okkur alla þá krafta sem okkur bjóðast,“ segir Ingólfur. Undirbúningsvinnan ætti þá að klárast á þessu ári.

„Það þýðir að við getum farið af stað fyrri hluta næsta árs, en við munum vinna þetta í þremur áföngum. Alls gætu því framkvæmdirnar tekið fjögur til fimm ár. Í því felst að setja upp fyrirtækið frekar, keyra fiskinn af stað og selja vöruna. Við viljum ekki vaða áfram og keppa við stærðina, heldur keppa við gæðin.“

Fimm hektara námugryfja

Hugmyndin að verkefninu kviknaði úti í Noregi, hjá bróður Ingólfs, sem starfað hefur síðustu ár við eldi í kvíum þar í landi en verið viðloðandi fiskeldi allt frá níunda áratugnum.

„Hann er búinn að stíga þennan reynsluskala, allt frá því að vera í seiðaeldi, strandeldi fisks upp í sláturstærð, ásamt kvíaeldi í Noregi. Þegar hann kom hingað til baka, seinni hluta árs 2015, þá var hann í raun farinn að hefjast handa við þessa hugmyndavinnu. Um leið hófst ítarleg leit að góðu svæði fyrir þetta verkefni, og sú leit náði allt frá Suðurnesjum og austur um.“

Fyrir valinu varð gömul fimm hektara námugryfja, fjögurra til sjö metra djúp, við strandlengju Þorlákshafnar; niðurgrafin og rétt við sjóinn uppfyllti hún allar kröfur hópsins og meira en það.

Hópurinn hefur einnig fest kaup á 330 hektara landi við Hveragerði, suður undir Kömbunum, en þar hyggjast þeir útbúa seiðastöð.

„Þetta svæði í Þorlákshöfn var ekkert skilgreint sem iðnaðarsvæði undir fiskeldi áður en við leituðumst við að fá það úthlutað, en hugmyndin okkar var sú að nýta þessa dýpt til að setja körin þar niður. Það þýðir að við spörum þá metra í raforkukostnaði sem fylgir því að dæla sjó upp úr jörðinni og í körin. Það er því svolítið eins og hugmyndafræðin í kringum verkefnið, og ég er búinn að vera að lýsa, hafi hitt þarna fyrir svæði sem hafi hreinlega verið hannað fyrir hana. Til að mynda er þegar búið að hrófla þarna töluvert við jörðinni, sem þýðir að tilkoma eldisins breytir engu þar um. Okkur er annt um þessa staðreynd.“

„Þarna viljum við vera“

Ingólfur segir að í Þorlákshöfn eigi sér nú stað margir spennandi hlutir, sem þó fari ekki endilega hátt, og það þrátt fyrir að hafa nýlega misst um fimmtíu störf með brotthvarfi Frostfisks til höfuðborgarsvæðisins.

„Bæjarfélagið er á mikilli uppleið eftir að ákveðið var að fara í miklar framkvæmdir til að stækka og bæta höfnina. Þorlákshöfn hefur þurft að glíma við miklar áskoranir en um leið tekið stór skref í átt að gríðarlegum tækifærum. Þegar við skoðum heildarmyndina þá, já – þeir hafa misst ansi stóra tekjuþætti úr byggðarlaginu, en ég spái því að eftir tíu ár þá verði Þorlákshöfn búin að þróast töluvert í krafti þess hversu mikið er að gerast í kringum höfnina, og hversu duglegir þeir hafa verið í að nýta sér tækifærin, til dæmis hvað varðar Mykinesið. Og þarna viljum við vera.“

Spurður hvort hópurinn hafi í hyggju að nýta sér Mykinesið, sem fer vikulega frá Þorlákshöfn til Færeyja og Rotterdam, segir Ingólfur að það komi vissulega til greina. Einnig nefnir hann Keflavíkurflugvöll, en þangað er vitaskuld hægt að flytja vörur án þess þó að þurfa að leggja leið sína í gegnum höfuðborgarsvæðið.

Verði í Þorlákshöfn frá A til Ö

Hópurinn hélt kynningu fyrir íbúa Ölfuss í Þorlákshöfn í marsmánuði. Segir Ingólfur að viðbrögð bæjarbúa hafi verið mjög góð.

200 mílur, nýtt 48 síðna sjávarútvegsblað, fylgdi Morgunblaðinu á föstudag.
200 mílur, nýtt 48 síðna sjávarútvegsblað, fylgdi Morgunblaðinu á föstudag.

„Það er ágætt að nefna það að samvinnan við sveitarfélagið hefur verið algjörlega einstök. Ég segi það við hvern sem er. Þarna starfar fólk sem er greinilega mjög annt um framtíð sveitarfélagsins. Síðan hefur verið skemmtileg forvitni í bæjarfélaginu í kjölfar íbúakynningarinnar. Við höfum fengið fjölda fyrirspurna um hvað það er sem við erum að pæla, hver markmiðin séu og svo framvegis, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Ingólfur.

„Eins og við setjum verkefnið upp, þá á það að vera í Þorlákshöfn frá A til Ö. Við viljum að öll vinna í kringum þetta verkefni fari fram í sama byggðarlagi og á þann hátt ættum við að geta aflað fimmtíu starfa, sem tengjast myndu eldinu á einn hátt eða annan. Það er mikilvægt í okkar huga að verkefnið verði sterkur hluti af bæjarfélaginu.“

Greinina má sjá í heild sinni í nýjasta sjávarútvegsblaðið 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu föstudaginn 6. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðmundur Arnar EA 102 Grásleppunet
Grásleppa 811 kg
Þorskur 429 kg
Skarkoli 36 kg
Steinbítur 15 kg
Samtals 1.291 kg
19.4.24 Björn Hólmsteinsson ÞH 164 Grásleppunet
Grásleppa 1.840 kg
Þorskur 148 kg
Skarkoli 15 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 2.008 kg
19.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 126 kg
Samtals 126 kg
19.4.24 Bobby 6 ÍS 366 Sjóstöng
Þorskur 213 kg
Samtals 213 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðmundur Arnar EA 102 Grásleppunet
Grásleppa 811 kg
Þorskur 429 kg
Skarkoli 36 kg
Steinbítur 15 kg
Samtals 1.291 kg
19.4.24 Björn Hólmsteinsson ÞH 164 Grásleppunet
Grásleppa 1.840 kg
Þorskur 148 kg
Skarkoli 15 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 2.008 kg
19.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 126 kg
Samtals 126 kg
19.4.24 Bobby 6 ÍS 366 Sjóstöng
Þorskur 213 kg
Samtals 213 kg

Skoða allar landanir »