Ástæða þess að íslensk yfirvöld hafa ekki innleitt EES-gerðir um hafnarmannvirki er að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingunni fyrr en ný hafnarlög voru samþykkt á Alþingi í maí á síðasta ári. Þetta upplýsir innviðaráðuneytið.
Síðastliðinn miðvikudag, 8. maí, ákvað eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að vísa máli gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland hafði ekki tilkynnt að það hafi innleitt í landslög EES-gerðir um hafnarmannvirki.
Varðaði málið „reglugerð um veitingu hafnarþjónustu og sameiginlegar reglur um fjárhagslegt gagnsæi hafna, auk breytingarreglugerðar sem veitir heimild til að sýna sveigjanleika varðandi innheimtu hafnarmannvirkjagjalda í tengslum við COVID-19,“ að því er fram kom í tilkynningu ESA.
„Innviðaráðuneytið vinnur nú að innleiðingu Evrópugerða um hafnarmannvirki og þegar innleiðingardrög liggja fyrir verða þau kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Búast má við því að það verði á næstu vikum,“ upplýsir innviðaráðuneytið í tölvupósti til 200 mílna.
„Forsaga málsins er sú að til þess að innleiða gerðirnar þurfti fyrst að lögfesta fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingunni. Það var gert með nýlegri breytingu á hafnalögum nr. 31/2023 sem Alþingi samþykkti í fyrra. Nú þegar lagastoð liggur fyrir er unnt að ljúka innleiðingunni, sem fyrr segir.“
Samevrópska flutninganetið
Evrópugerðin er reglugerð sem nær til allra hafna í Evrópu sem heyra undir hið samevrópska flutninganetsins. Fimm hafnir á Íslandi heyra undir þetta flutninganet og eru það Sundahöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Fjarðabyggðahafnir, Vestmannaeyjahöfn og Landeyjahöfn.
Með hinum nýju hafnarlögum fylgdi meðal annars heimild til hafna til að innheimta gjöld sem taka mið af umhverfissjónarmiðum, orkunýtni eða kolefnisnýtni. Markmið slíkrar gjaldtöku hefur verið að skapa hvata til umhverfisvænni skipareksturs.