Útför fer yfirleitt fram 6 til 10 dögum eftir andlát. Hver stýrir athöfninni er val aðstandenda, hvort sem það er prestur eða einhver annar, en yfirleitt ræða aðstandendur fyrst við prest eða útfararstjóra/útfararstofu um tilhögun útfararinnar.
Almennt hvílir skylda á erfingjum hins látna að tilkynna andlát, hvort heldur sem er lögerfingjum eða bréferfingjum. Lögerfingjar eru maki, börn, foreldrar, afi og amma og niðjar þeirra. Bréferfingi er sá sem tekur arf samkvæmt erfðaskrá. Þegar andlát er tilkynnt þarf að hafa dánarvottorð meðferðis.
Sýslumenn hafa í flestum tilfellum utanumhald yfir erfðaskrá.
Útfararstjóri flytur hinn látna af dánarstað til varðveislu í líkhúsi. Hann getur einnig tekið að sér flutning milli staða innanlands eða til eða frá landinu.
Algengast er að nota hvítar kistur en aðstandendur ráða lit á kistu. Einnig er hægt að fá kistu úr gegnheilum við, furu, eik eða birki. Líkklæði eru yfirleitt hvít náttföt og sokkar á karlmenn en hvítur náttkjóll, undirföt og sokkar á konur. Aðstandendur geta valið annan fatnað. Útfararstjóri býr um hinn látna í kistunni.
Kistulagning er val aðstandenda í samráði við þann sem stýrir athöfninni og útfararstjóra. Færst hefur í vöxt að kistulagning og útför fari fram saman. Kistulagning er algeng athöfn en ekki alltaf haldin. Sjálf útförin er síðan ákveðin í samráði við þann sem stýrir útförinni og útfararstjóra.
Kistulagning fer fram á virkum degi á einhverjum tíma milli kl. 9.00 og 15. Útfarartímar á höfuðborgarsvæðinu eru á virkum dögum kl. 11.00, 13.00 og 15.00. Sé bálför valin þarf að fylla út eyðublað hjá útfararstjóra. Eftir athöfnina fer kistan í bálstofu í Fossvogi. Að bálför lokinni er kerið jarðsett eða öskunni dreift í samráði við aðstandendur.
Aðstandendur velja tónlist og flytjendur í samráði við prest, orgelleikara eða útfararstjóra. Þeir geta útvegað tónlistarmenn til flutningsins, hvort sem um er að ræða söngvara, orgelleikara eða annað tónlistarfólk.
Læknir gefur út dánarvottorð. Í þeim tilfellum sem krufning fer fram gefur krufningar- eða héraðslæknir það út. Aðstandendur tilkynna andlátið til sýslumanns og framvísa dánarvottorði. Sýslumaður gefur síðan út útfararleyfi, sem afhenda skal þeim sem sér um útförina.
Aðstandendur auglýsa oft andlát og útför í blöðum, útvarpi eða vefnum. Hægt er að bóka auglýsingu í Morgunblaðið og á mbl.is með því að smella hér.
Aðila sem sinna blómaskreytingum má finna í þjónustuskránni hér á vefnum. Einnig getur útfararstofa útvegað blómaskreytingar eða fána ef óskað er. Flestar útfararstofur taka einnig að sér að útbúa sálmaskrá við athöfn, ákvarða fjölda kistubera, annast merkingu leiðis og fleira.
Allir eiga rétt á legstað í kirkjugarði, óháð trúfélagi. Ef ekki hefur verið tekinn frá legstaður aðstoðar útfararstofan við að útvega legstað.
Sýslumaður getur heimilað að teknir séu fjármunir af bankainnstæðum hins látna til þess að greiða kostnað við útför. Þeim sem fær slíka úttektarheimild ber að gera sýslumanni grein fyrir því hvernig fjármununum var ráðstafað. Helstu kostnaðarliðir eru yfirleitt útför, útfarartilkynning, erfidrykkja og kross eða legsteinn.
Ef hinn látni var eignalaus borgar sveitarfélag útfararstyrk. Einnig getur þurft að kanna rétt til útfararstyrks hjá sjúkrasjóði stéttarfélags. Útfararstjóri sér um allt reikningshald.