Þýður, þægilegur og þróttmikill

Audi A7 var þýður í reynsluakstri í Þýskalandi, jafnt á …
Audi A7 var þýður í reynsluakstri í Þýskalandi, jafnt á hraðbrautum sem blautum sveitavegum.

Bílablaðamenn voru nýlega á heimavelli Audi-verksmiðjanna að prófa nokkur áhugaverð tæki og við höfum þegar sagt frá Audi A4 RS-villidýrinu.

Herrann í Audi-hópnum var hins vegar Audi A7 quattro sem einnig var reyndur í austurrísku Ölpunum og á þýsku hraðbrautunum. Upplifunin að keyra hann var einnig mikil en bara á annan hátt, því þótt hann vanti svo sem ekki aflið var það mýktin og þýðleikinn ásamt þægindunum sem komu mest á óvart í þessum bíl.

Má bjóða þér mjóbaksnudd?

Audi A7 er mjög flottur og rennilegur bîll ef undanskilinn er afturendi sem að er eins og endasneitt bóndabrauð. Bíllinn sem við fengum var einstaklega vel búinn og má þar nefna einstök hljómtæki frá Bang & Olufsen og framsæti sem buðu upp á allar tegundir af nuddi. Hægt var að stilla á mjóbaksnudd eða herðanudd sem kom sér vel á löngum hraðbrautarleiðum.

Þegar bíllinn var ræstur flettist upplýsingaskjárinn upp úr miðju mælaborðinu og hætt er við að mörgum hefði þótt nóg um allt upplýsingastreymið sem kom frá tveimur litaskjám og díóðulýstu mælaborðinu. Það þarf líka hálfs dags námskeið til að læra á alla fídusana í þessum bíl, grínlaust, enda býður Audi upp á það við afhendingu bílsins í Ingolstadt. Meðal búnaðar sem ekki sést oft í bílum má nefna myndavélar á öllum hornum bílsins en með þeim mátti sjá allt sem kom nálægt bílnum og jafnvel taka upp á þær sem nokkurs konar þjófavörn þegar ökumaður var ekki nærri.

Einstaklega hljóðlátur

Aksturinn á Audi A7 er hárnákvæmur án þess að vera á brúninni eins og í RS-bílnum. Hann var búinn togmikilli þriggja lítra dísilvél við átta þrepa Tiptronic-sjálfskiptingu og með Quattro-fjórhjóladrifinu. Skrikvörnin var þannig uppsett að maður fann varla fyrir því þegar hún tók í bílinn þótt verið væri að beita bílnum á blautum vegi. Þetta er líka einstaklega vel hljóðeinangraður bíll og stundum þegar hann var í lausagangi var ekki hægt að heyra í vélinni.

Fyrir akstursáhugamann sem er jafnframt að leita að fágun hlýtur þessi bíll að vera ofarlega á blaði. Eini gallinn er verðið en í þessari útfærslu er grunnverðið 15.190.000 kr. og á þá eftir að bæta við öllum aukabúnaði. Til að mynda kostar Bang & Olufsen hljómkerfið litlar 1.590.000 kr. sem er næstum bílverð í sjálfu sér.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka