BMW kynnti á bílasýningunni í Genf í vor nýja gerð 3-línunar sem byggir á GT-útfærslunni sem áður var í boði í 5-línunni. GT er skammstöfun fyrir Gran Tourismo en um leið var kynnt andlitslyfting á 5-línunni til að gefa báðum línunum sama ættarsvipinn.
Andlitslyftingin er reyndar minniháttar, smá augnblýantur yfir framljósin og aðhaldsaðgerðir á afturendanum en bíllinn þótti alltaf frekar rassstór. Um leið fá báðar línurnar nýjar vélar sem allar uppfylla Euro VI staðalinn sem allir evrópskir bílar verða að uppfylla strax í september á næsta ári. Bílablaðamaður Morgunblaðsins tók í fjórhjóladrifinn 320 GT í Luxury-útfærslu um helgina og lét vel af.
Að sögn Page Biermann, hönnuðar bílsins, er hann lauslega byggður á Lamborghini Espada GT-bílnum sem ítalski framleiðandinn bauð upp á milli 1968 og 1978. Nýja 3-línu GT-útgáfan byggist á sama undirvagni og lengri gerð 3-línunnar sem smíðuð er fyrir Kínamarkað. Hann er mun stærri en aðrir í 3-línunni, næstum fimm metrar á lengd og með tæplega þriggja metra hjólhaf. Til samanburðar er hann 200 mm lengri en Touring-útfærsla 3-línunnar og hjólhafið 110 mm lengra. Fótarýmið er líka töluvert betra eða 59 mm lengra. Fyrir vikið væsir ekki um neinn í þessum bíl, jafnvel ekki þá sem eru í stærri kantinum. Sætin eru stór og gefa stuðning undir allan lærlegginn um leið og fótarými er með afbrigðum gott, og þá ekki síst í aftursætum þar sem það er í algjörum sérflokki fyrir bíl af þessari stærð. Farangursrými er einnig með besta móti og munar þar um hversu langt það er. Hægt er að koma fyrir 520 lítrum af farangri og með því að fella þrískipt aftursæti niður má stækka það í heila 1.600 lítra. Lengdin gerir það að verkum að bíllinn verður draumabíll golfarans því að þetta skott tekur þrjú golfsett án vandkvæða. Útsýni aftur mætti þó vera betra en þar sem afturglugginn er hátt uppi skyggir afturendinn ásamt breiðum C-bitum á útsýnið.
Innrétting bílsins er í hefðbundnum BMW-stíl og nákvæmlega ekkert sem kemur á óvart þar. Allur frágangur er með besta móti, allt vel staðsett og efnisvalið gott en um leið virkar það jafnvel pínulítið gamaldags. Upplýsingaskjár kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum upp úr miðstöðvarstokkum í miðjustokk svo hann virkar eins og seinni tíma viðbót. Aðeins er ein hitastilling á miðstöð en ekki skipt á milli rýma eins og búast mætti við í þetta stórum bíl. Það kemur dálítið á óvart að sjá að blátannarbúnaður er aukabúnaður í þessum bíl sem kostar heilar 135.000 kr. að bæta við en þetta er orðinn staðalbúnaður í bílum sem kosta helmingi minna en þessi bíll. Eins er bakkmyndavél ekki í boði sem staðalbúnaður fyrr en í fjórhjóladrifsútgáfu eins og við reyndum en þannig kostar bíllinn líka 9.790.000 kr. Fjarlægðarskynjari að framan reyndist með afbrigðum stressaður í reynsluakstrinum og brá þá undirritaður á það ráð að slökkva á honum. Við það slökknaði einnig á bakkmyndavélinni sem verður að teljast furðulegt, að leyfa henni ekki að halda sér þótt slökkt sé á pirrandi vælinu í fjarlægðarskynjaranum.
Í akstri er 3-línu GT-bíllinn með skemmtilegri bílum þegar miðað er við bíla af þessari stærðargráðu. Hann liggur vel á vegi og virkar snöggur en um leið stöðugur í stýri sem er létt í notkun. Þyngdardreifingin er jöfn á milli ása og fjöðrunin virkar létt og viðbragðsgóð, þökk sé mörgum íhlutum úr áli. Að vísu verður vart við undirstýringu þegar reynir vel á hann í beygjum en það er viðbúið í þetta löngum bíl. Ekki skemmir fyrir að hann virkar einnig hljóðlátur í akstri þrátt fyrir að dísilvélin þurfi að hafa töluvert meira fyrir því að hreyfa bílinn sem slagar í þyngd góðs jepplings. Uppgefin eyðsla er ekki nema tæpir fimm lítrar en samkvæmt eyðslutölvu bílsins rokkaði meðaleyðslan innanbæjar milli 8 og 9 lítra. Hans helsti keppinautur er án efa Audi A5 Sportback en þeir eru mjög nálægt hvor öðrum í tölum, þótt BMW-inn sé ívið stærri en um leið léttari. Grunnverð A5 Sportback 1,8 er 7.890.000 kr. sem er talsvert meira en í BMW 318d GT en því miður eru ekki upplýsingar um verð á dísilbílnum á heimasíðu Heklu. Þegar fjórhjóladrifið er tekið með í reikninginn munar heldur minna á bílunum en grunnverð 320 Xdrive GT er 7.690.000 kr. Staðalbúnaður Audi-bílsins er þó aðeins meiri sem réttlætir að einhverju leyti þennan mun.
njall@mbl.is