Hinn laglegasti Leaf

Frá því rafbílar fóru að ryðja sér til rúms í almannaeigu hefur Nissan Leaf borið höfuð og herðar yfir aðra bíla hvað fjölda seldra eintaka varðar, hérlendis sem annars staðar þar sem rafbílar hafa á annað borð náð að festa sig í sessi að einhverju marki.

Það má heita góður árangur með tilliti til þess að bíllinn vann engar fegurðarsamkeppnir, frómt frá sagt. En skaplegt verðið og dágott drægið trompaði greinilega sjónræna þáttinn og Leaf varð rafbíll almúgans. Vænta má frekari drottnunar Nissan Leaf á sínu sviði því önnur kynslóð bílsins hefur nú litið dagsljós og viti menn, bíllinn hefur tekið sannkallað risastökk fram á við hvað útlitið áhrærir. Nissan Leaf er bara orðinn laglegasti bíll og það sem meira er, það er hreint ekki leiðinlegt að keyra hann.

Það var mikið, Nissan. Þarna!

Þegar nýi Leaf er borinn saman við þann gamla fær maður ekki varist því að spyrja sig hvað í ósköpunum vakti fyrir hönnuðum Nissan þegar sá gamli var teiknaður, ekki síst þegar lausnin var inni á gafli hjá þeim allan tímann! Hér hefur nefnilega það sama gerst og með jeppann Nissan X-Trail. Hann var heldur ólánlegur útlits uns Nissan afréð að heimfæra grunnþætti hins framúrskarandi vel heppnaða útlits á jepplingnum Qashqai – alltént hvað framendann, ásjónu bílsins, varðaði – yfir á uppfærðan X-Trail. Það lukkaðist frábærlega og jeppinn sá er feikivel heppnaður í dag. Með sama hætti sver Leaf sig nú í ættina, fríður og föngulegur, og vægast sagt gerbreyttur frá fyrri gerð. Ef ekki væri fyrir blokkerað framgrillið mætti í raun vart sjá að um rafbíl er að ræða. Sem er einmitt vel – óskiljanleg árátta bílaframleiðenda í þá átt að ljá rafbílum sínum útlit sem helst mætti kalla einu nafni spes er löngu komin fram yfir síðasta söludag. Þess í stað er Leaf einfaldlega sportlegur að sjá, gæjalegur og í einu orði sagt: flottur. Kíkið bara á meðfylgjandi myndir.

Fínn að innan en hvað er með þessa gírstöng eiginlega?!

Innviðir hins nýja Leaf eru að sama skapi reffilegir og umgjörð ökumanns í heildina flott. Stýrið er með cut-off lagi og eftir því sportlegt, og bláir saumar í áklæðinu gefa honum „dýran“ og skemmtilegan svip. 7 tommu skjár stendur fyrir sínu, bæði hvað varðar upplýsingagjöf og almennatengimöguleika. Þetta er bíll sem hæfir snjallkynslóðinni og það refjalaust. Öryggið er í öndvegi að sama skapi og 6 stykki líknarbelgir leggja sitt af mörkum til að ljá ökumanni hugarró og það er almennur stæll yfir innréttingunni allri. Stórt hrós fyrir hana.

Það er alkunna að rafhlaðan tekur oftast pláss frá farangursrými rafbíla og skerðir skottplássið þar af leiðandi talsvert. Þetta er blessunarlega ekki vandamál í Nissan Leaf því hann er með 400 lítra skott, sem er prýðisgott fyrir bíl í þessum stærðarflokki, og með því að fella niður aftursætin fæst farangursrými sem nemur 1176 lítrum. Það er hreint prýðilegt og hönnuðum til sóma.

Þó verður ekki hjá því komist að ergja sig aðeins á gírstönginni, en hún er af því snubbótta tagi sem fólki virðist einhverra hluta vegna tamt að setja í rafbíla. Ef viljinn stendur til þess að gera gírstangirnar sem fyrirferðarminnstar væri allt eins ráð að umbreyta þeim alfarið í láréttan sneriltakka eins og tíðkast í hinum og þessum bílum upp á síðkastið. Mér leiðast þessar einkennilegu gírstangir og þær gera ekki nokkurn hlut fyrir mig. Þetta er það eina sem angraði mig varðandi innviði bílsins þegar hann var prófaður á Tenerife um miðjan síðasta mánuði.

Stórskemmtilegur í akstri

Það er lán í óláni að ökumaður þarf ekki mikið að velta gírstönginni fyrir sér í akstri þegar um sjálfskiptan bíl er að ræða, og hún gleymist nánast samstundis þegar tekið er af stað. Nissan Leaf er nefnilega engin saumavél heldur eldsprækur í akstri, svo undrum sætti þegar honum var reynsluekið. Rafmótorinn skilar 320 Nm togi til hjólanna og bíllinn er 7,9 sekúndur í hundraðið. Það er um leið mikils vert að drægið er um 380 kílómetrar, og það tekur um það bil 50 mínútur að hlaða rafhlöðuna upp í 80% hleðslu. Það er auðvitað gott og blessað upp á praktísku hliðina en mál málanna er að Leaf er með hressandi upptak og það er minnstur vandinn að taka fram úr hægfara bílum ef því er að skipta. Hann lá vel á hraðbrautum Tenerife og átti alltaf smá djús inni þegar þess þurfti með, við framúrakstur og þess háttar æfingar.

Það er einnig aðdáunarvert hve hljóðlátur bíllinn er. Eins og gefur að skilja er ekki hefðbundnu vélarhljóði til að dreifa, en Nissan Leaf útilokar nánast allt veghljóð sömuleiðis, ásamt því að yfirbyggingin gnauðar sama og ekkert vegna loftmótstöðu. Virkilega vel gert og einn stærsti plúsinn við bílinn í akstri.

Forskotið líklega áfram tryggt

Með hliðsjón af því að Nissan Leaf stakk aðra rafbíla fljótlega af hvað sölutölur varðar, og það með útliti fyrstu kynslóðarinnar, þá skyldi maður ætla að sá nýi rynni út eins og heitar lummur. Og það er líka reyndin: þó að bíllinn sé ekki kominn í almenna sölu ennþá er búið að panta af honum rúmlega 12.000 eintök nú þegar. Það er ótrúlegur árangur og við blasir að Nissan Leaf hefur tekist að styrkja stöðu sína sem hinn leiðandi rafbíll á markaðnum. Slíkt getur reynst ómetanlegt þegar fram í sækir og samkeppnin harðnar. Verði Leaf almennt álitinn sem „rafbíllinn“ á markaðnum, burtséð frá útspilum samkeppnisaðilanna, þá er honum tryggður öfundsverður sess í framtíðinni. Með ljómandi vel heppnaðri uppfærslu á Leaf hefur Nissan auðveldað rafsinnuðum bílakaupendum að velja Leaf og lítil teikn þess á lofti að forskot hans réni neitt að ráði í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: