Urrandi sportbíll í dulargervi

„Þegar ég lagði á bílaplaninu við Gullfoss, innan um alla …
„Þegar ég lagði á bílaplaninu við Gullfoss, innan um alla pimpuðu ofurjeppana, var Urus langsætasta stelpan á ballinu.“ mbl.is/​Hari

Fyrstu stefnumót geta verið taugatrekkjandi. Jú, vissulega leit Ítalinn út fyrir að vera vöðvastæltur og rennilegur á mynd. Og á pappír hljómaði hann eins og tíu af tíu mögulegum. En hvað ef hann getur svo ekkert? Eða reynist vera með óþægilega nærveru, pirrandi rödd eða, quelle horreur, er hreinlega leiðinlegur?

Það var því með óttablandinni eftirvæntingu og fiðringi í maga sem ég fór að hitta Urus, ofurjepplinginn úr smiðju Lamborghini. Er í alvörunni hægt að vera bæði í einu, nothæfur bíll til daglegs brúks innanbæjar og utan, og urrandi tryllitæki sem tætir í gegnum beygjur á ljóshraða, smurður ofan í malbikið.

Ekki í samræmi við stærð

Með Urus virðist Lamborghini hafa tekist hið ómögulega: að gera …
Með Urus virðist Lamborghini hafa tekist hið ómögulega: að gera ítalskan sportbíl fyrir íslenskar aðstæður. mbl.is/​Hari


Stutta svarið er já. Lamborgini virðast hafa tjaldað öllu til svo Urus geti keyrt eins og eitthvað af þessari stærð og lögun ætti alls ekki að geta gert. Þetta tókst þeim t.d. með því að hafa stöðugleikastýringu í fjöðrun, og stjórn á öllum hjólum, en afturhjólin beygja á móti framhjólunum á minni hraða til að gera bílinn meðfærilegri, en með þeim í hröðum akstri til að gera hann stöðugri.

Urus byggir á sama grunni og aðrir bílar svipaðar stærðar frá Volkswagen-samsteypunni eins og Audi Q7 og Porsche Cayenne. Tíu strokka vélin sem hugmyndabíllinn skartaði fær að fjúka í framleiðsluútgáfunni og í staðinn er komin fjögurra lítra, átta strokka vél með tvöfaldri forþjöppu sem byggist á vél frá Audi, með umtalsverðum breytingum þó, enda skilar hún hvorki meira né minna en 641 hestafli. Þetta er fyrsti bíll Lamborghini með forþjöppu og virðist það hafa farið nokkuð þvert ofan í suma aðdáendur framleiðandans sem hafa kvartað yfir minna vélarhljóði og frestuðu viðbragði meðan forþjappan kikkar inn. Ég legg til að þeir hringi í vælubílinn.

Það er nefnilega óendanlega gaman að stíga á bensíngjöfina. Fast. Og þegar maður fær færi til þess á sæmilega beinum kafla bókstaflega urrar Urus af stað og neglir mann niður í leðurklædd lúxussætin með tilheyrandi sæluhrolli. Enda ekki nema 3,6 sekúndur í hundraðið og 12,4 í tvö hundruð, með ríflega 300 kílómetra hámarkshraða.

Á heima í Reykavík

Notagildið fer ekki milli mála og Urus á heimavelli á …
Notagildið fer ekki milli mála og Urus á heimavelli á götum Reykjavíkur. mbl.is/​Hari


Og þrátt fyrir að geta þetta er Urusinn alveg á heimavelli í hefðbundinni umferð. Það væri nefnilega kjánalegt að rúnta um á Huracan eða Aventador á götum Reykjavíkur. Bíll sem lítur út eins og geimskip og er undir þremur sekúndum í hundraðið myndi a.m.k. í mínum hug vekja stórar spurningar um sjálfsmynd eigandans, ef ég mætti honum á bílaplaninu fyrir utan Bónus. Svipuð hughrif og þegar menn birta speglasjálfu af magavöðvunum á samfélagsmiðlum. Fyrir utan hvað það væri vandræðalegt að þurfa að keyra svoleiðis bíl á 10 km/klst yfir hraðahindranir og holóttar götur í miðbænum.

Þó Urus standi ofursportbílunum ekki langt að baki hvað frammistöðu varðar þarf ekki annað en að setja hann í götustillingu til að hann breytist í kurteisan og þægilegan fjölskyldubíl. Sem skartar þar að auki ríflegu farangursrými og óvenju rausnarlegu pláss fyrir ökumann og farþega. Og þótt það sé ólíklegt að tilvonandi kaupendur Urus ætli sér að bjóða honum upp á alvarlegar torfærur fer hann að minnsta kosti létt með malarvegi og þvottabretti. Línurnar á Urus eru vissulega rennilegar og sverja sig í ætt við aðra bíla Lamborghini, en hann er hinsvegar hófstilltari í útliti og gæti meira að segja næstum dulbúist sem „venjulegur“ jepplingur. Ekki fyrir það, fólk snýr sér við, nokkrum sinnum jafnvel, þegar það sér hann. Þegar ég lagði á bílaplaninu við Gullfoss, innan um alla pimpuðu ofurjeppana, var Urus langsætasta stelpan á ballinu og myndaður í bak og fyrir af forvitnum ferðamönnum.

Hóflegt verð

Lamborghini Urus
Lamborghini Urus mbl.is/​Hari


Tveimur dögum eftir fyrsta stefnumót okkar langaði mig mest að flýja réttvísina og strauja beint austur í Norrænu með mínum heittelskaða Lambó. Því þótt hann sé án nokkurs vafa kandídat í langtímasamband mun hinsvegar kosta að krækja í hann. Fjörutíu milljónir eða svo, sem, mér finnst ótrúlegt en satt ekki óhóflegt. Og þá vakna spurningar. Hvað fær maður fyrir nýra? Eru einhver önnur líffæri sem ég get séð af? Þarf ég í alvöru að eiga íbúð? Eða er hægt að fjárfesta í hjólhýsi, smella dráttarkrók á Urusinn og lifa hamingjusamur til æviloka? Hví ekki.

Lamborghini Urus
Lamborghini Urus mbl.is/​Hari
Lamborghini Urus
Lamborghini Urus mbl.is/​Hari
Lamborghini Urus
Lamborghini Urus mbl.is/​Hari
Lamborghini Urus
Lamborghini Urus mbl.is/​Hari
Lamborghini Urus
Lamborghini Urus mbl.is/​Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: