Mikið fyrir peninginn

„Erlend pressa heldur vart vatni yfir Rexton, sem var til …
„Erlend pressa heldur vart vatni yfir Rexton, sem var til að mynda kjörinn jeppi ársins af 4x4 Magazine.“ mbl.is/​Hari

Oooh, ég elska hvað þú ert fordómalaus!“ Þetta var það fyrsta sem ferðafélagi minn í reynsluakstrinum á Rexton hafði að segja um fararskjótann. Það var engu líkara en ég hefði boðið honum í bíltúr á kassabíl. SsangYong hefur nefnilega hingað til kannski ekki þótt fínt merki. Rexton vekur ekki sömu hughrif og dýrari jeppar í sama flokki. Með 2018-árgerð bílsins er samt tilefni til að endurskoða viðhorfið gagnvart framleiðandanum. Maður kaupir sér kannski ekki sjálfsvirðingu með SsangYong, en maður fær heilmikið annað fyrir aurinn.

Það fyrsta sem sló mig þegar ég settist undir stýri er hve veglegur Rexton er. Yfirdrifið pláss er fyrir ökumann og farþega og yfirbragðið og efnisval innandyra allt eins og í mun dýrara farartæki. Merkilega lítið er um hart plast í innréttingunni og sætin frábær, klædd mjúku stungnu nappa-leðri. Hiti er í tveimur fremri sætaröðum en fremstu sætin eru jafnframt búin loftkælingu. Margmiðlunarskjárinn er 9,2 tommu litaskjár, kerfið styður bæði Android og Apple CarPlay og var hið þægilegasta í notkun.

Þótt það sé tæpast eitthvað sem mun ráða úrslitum hjá tilvonandi kaupendum er Rexton líka búinn fídus sem ég man ekki eftir að hafa rekist á áður: það er hægt að skipta um hljóð á stefnuljósinu. Eftir að hafa spólað í gegnum nokkrar útgáfur af mispirrandi tölvuleikjahljóðum og fuglasöng var þó ákveðið að halda sig við þetta klassíska. Annað sem ég kunni þó verulega að meta er hefðbundin 220 V innstunga í aftursætinu. Örugglega ekki slæmt að geta hlaðið fartölvuna þar í útilegu uppi á hálendi.

Rexton er líka búinn öllum nýmóðins öryggisbúnaði og aðstoð við bílstjóra, s.s. fjarlægðarskynjurum að framan og aftan, sjálfvirkri stýringu á háum ljósum, akreinavara, árekstrarviðvörun og sjálfvirkri neyðarhemlun. Þá gera fjórar myndavélar á bílnum ökumanni auðveldara að athafna sig hvort sem verið er að leggja Rexton í stæði eða bakka kerru að sumarbústaðnum. Hliðarspeglar aðlaga sig svo sjálfkrafa að breyttri akstursstefnu ef bíllinn er settur í bakkgír, til að bæta útsýni ökumanns. Sjá heilir níu loftpúðar um að tryggja öryggi ökumanns og farþega.

Þrátt fyrir að sóma sér best í torfærum var Rexton þéttur og þægilegur í akstri úti á þjóðvegi og vind- og veghljóð merkilega lítið. Einhvern veginn tókst mér allavega að vera komin óþarflega langt yfir löglegan hámarkshraða án þess að ég eða ferðafélaginn yrðum þess vör á leiðinni austur fyrir fjall. Ekki það að Rexton sé neinn sportbíll, og urrar ekki beint af stað sé honum gefið inn, enda ekki það sem hann er gerður fyrir.

Alvörujeppi

Rexton er nefnilega – þrátt fyrir að vera þægilegur á beinu brautinni – alvörujeppi. Byggður á grind, með læstum millikassa og lágu drifi. Þéttilistar undir hurðum halda sílsum hreinum þegar keyrt er í bleytu og drullu og þá er dráttargetan til háborinnar fyrirmyndar: þrjú tonn, sem er það mesta í þessum flokki jeppa og yfirdrifið nóg fyrir hjólhýsi eða hestakerru. Bíllinn verður eingöngu fáanlegur í sjö sæta útgáfu hér heima, en sé aftasta sætaröðin fjarlægð myndast víðáttufarangursrými, og er til að mynda hægt að koma fjórum golfsettum fyrir þvert í skottinu.

Erlend pressa heldur vart vatni yfir Rexton, sem var til að mynda kjörinn jeppi ársins af 4x4 Magazine, þar sem hann atti kappi við bíla á borð við Toyota Land Cruiser, Mercedes Benz G-Class, Mitsubishi Pajero, Jeep Wrangler og Skoda Kodiaq. Blaðið kaus hann einnig bestu kaupin, en ritstjóri þess gekk raunar svo langt að segja samspilið af búnaði, hönnun, notagildi og framleiðslugæðum ekkert annað en magnað; og væri það jafnvel þótt hann kostaði tvisvar til þrisvar sinnum meira.

Við vorum ekki komin lengra en upp að Litlu Kaffistofunni þegar samferðamaður minn hafði skipt um skoðun á jeppanum. „Þú veist að við værum að missa okkur yfir þessum bíl ef það væri annað merki framan á honum,“ sagði hann og klappaði stungnu leðrinu í innréttingunni. Og mögulega er það rétt hjá honum. Rexton er stórt stökk fram á við fyrir SsangYong og það verður spennandi að fylgjast með framleiðandanum í framtíðinni.

SsangYong Texton

» 2,2l dísel

» 181 hestafl, 420 Nm

» Fáanlegur bein- eða

sjálfskiptur

» 8,3l /100 km í blönduðum akstri

» Úr 0-100 km /klst á rúmum 11 sekúndum

» Hámarkshraði km /klst 186

» Fjórhjóladrifinn

» 225/50R20 dekk

2.049 kg

Farangursrými allt að 1.806 l

» Koltvísýringslosun

218 g/km

» Verð frá 6.990.000 kr.

Rexton hakar hér um bil við öll boxin og hlýtur …
Rexton hakar hér um bil við öll boxin og hlýtur að teljast mjög góð kaup. mbl.is/​Hari
Rexton hakar hér um bil við öll boxin og hlýtur …
Rexton hakar hér um bil við öll boxin og hlýtur að teljast mjög góð kaup. mbl.is/​Hari
Vélarhólf Ssang Young Rexton.
Vélarhólf Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Rexton hakar hér um bil við öll boxin og hlýtur …
Rexton hakar hér um bil við öll boxin og hlýtur að teljast mjög góð kaup. mbl.is/​Hari
Rúmgóð farangursgeymsla er í Ssang Young Rexton.
Rúmgóð farangursgeymsla er í Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Vel fer um ökumann og farþega í Ssang Young Rexton.
Vel fer um ökumann og farþega í Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Ssang Young Rexton.
Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Gott pláss er í aftursætum Ssang Young Rexton.
Gott pláss er í aftursætum Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Ssang Young Rexton.
Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Ssang Young Rexton.
Ssang Young Rexton. mbl.is/​Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: