Allt sem prýða má einn bíl

Lítið er um áberandi útlitsbreytingar á milli kynslóða, en það …
Lítið er um áberandi útlitsbreytingar á milli kynslóða, en það litla sem breytt hefur verið skilar samt miklu og gerir nýja 911 vígalegri, og heldur samt klassísku og virðulegu yfirbragðinu. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsson & Porsche

Þegar ég sá nýja Porsche 911 fyrst, á planinu fyrir utan Ricardo Tormo kappakstursbrautina í Valensía, varð mér hugsað til Nicks Jonas.

Þannig er, að um alllangt skeið hefur mér tekist að blekkja eiginmanninn minn. Hann heldur að Nick litli sé sú dægurstjarna sem ég væri líklegastur til að stökkva í fangið á, á meðan raunin er að það er rapparinn Tyler Gregory Okonma – Tyler, the Creator – sem eiginmaðurinn ætti helst að óttast einhverja samkeppni frá.

(Þeir lesendur sem laðast meira að kvenfólki geta skipt Nick út fyrir Beyoncé og Tyler fyrir Jennifer Lawrence, og sjá þá kannski hvað ég meina.)

Gallinn við hann Nick (og Beyoncé), er nefnilega að hann er gallalaus. Er sama hvað maður leitar, að það virðist ekki hægt að finna á honum nokkurn veikleika – ekkert sem pirrar – og hann virðist bara verða elskulegri og laglegri með hverjum deginum sem líður. En Tyler (og Jennifer), aftur á móti, er ekki sami hnökralausi sykurpúðinn. Hann er grallaraspói, svolítið álkulegur á köflum, vís til að láta allt flakka, en bara meira heillandi fyrir vikið.

Ég er eins þegar kemur að bílum, og veikur fyrir dyntóttum ökutækjum. Langar mest af öllu að eiga galopinn og ópraktískan Caterham til að djöflast á, ellegar Lamborghini Huracán EVO sem ýfir stélið eins og páfugl með djúpstæða minnimáttarkennd og bæði hvæsir og frussar út um púströrið eins og skapheitur Ítali.

En sumsé, aftur að Nick og nýja 911: Þarna stóð ég frammi fyrir sjálfri fullkomnuninni: Afrakstri þrotlausrar vinnu þýskra verkfræðinga sem allt frá sjöunda áratugnum hafa reynt að smíða bíl sem er laus við alla veikleika: aflmikill og fimur, en um leið hentugur fyrir daglega notkun; straumlínulagaður og sportlegur, en um leið tignarlegur; eins og raketta á veginum en samt tiltölulega sparneytinn.

Hafði ég kannski haft Nick fyrir rangri sök? Er nokkuð til sem heitir of mikið af því góða?

Að minnsta kosti tók hjartað kipp.

Blautt malbik í morgunmat

Hvar á að byrja með svona bíl? Blaðamenn verða jú að vara sig á oflofinu. En það er eitthvað við ökutækin frá þeim í Stuttgart sem enginn annar framleiðandi getur keppt við. Þau skipti sem ég hef sest á bak við stýrið á Porsche-bifreið er eins og hún verði strax framlenging af sjálfum mér. Allt er eins og það á að vera, frá viðbragði og aksturseiginleikum yfir í óræðari þætti sem valda því að þessir bílar eru eins og hugur manns. Nýjasta kynslóð 911 er engin undantekning frá þessu.

Eiginleika 911 fann ég afskaplega greinilega á rennblautri akstursbraut sem Porsche hafði útbúið fyrir utan kappaksturshöllina í Valensía. Ein merkilegasta tækninýjungin í áttundu kynslóð 911 er sérstök stilling fyrir akstur í bleytu, en það hefur þótt vera veikleiki þessara léttu og kraftmiklu bíla að í hellirigningu hættir þeim til að hafa minna grip en þyngri og kraftminni ökutæki.

Nú er búið að koma fyrir hljóðnemum sem hlusta á dekkin og greina þannig hvenær vegurinn er blautur. Ökumaður fær þá meldingu um að ráðlegt væri að velja þar til gerðan wet-akstursham. Þegar það hefur verið gert breytist hegðun stöðugleika- og ABS-kerfisins, og tölvan um borð hægir agnarögn á hröðuninni ef gefið er í, svo bíllinn spóli ekki. Kraftinum er líka dreift jafnar á öll fjögur dekkin, og vindskeiðar bæði að framan og aftan breyta um stöðu til að mynda loftaflskraft sem hjálpar til að þrýsta dekkjunum niður í malbikið.

„Hvernig er þetta hægt?“ hugsaði ég með mér, á harðaspani um blautu brautina, því bíllinn var álíka stöðugur og lest ofan á teinum. Ekki fylgir sögunni hvort að bleytu-stillingin gerir kannski líka gagn við akstur í snjó og hálku, en kæmi samt ekki á óvart.

Gestgjafarnir frá Porsche voru ekki búnir. Næst var röðin komin að aðal-kappakstursbrautinni sem nefnd er eftir mótorhjólahetjunni Ricardo heitnum Tormo. Nú skyldi vélin sett á Sport-Plus stillingu, á kappakstursbraut þar sem allt er leyfilegt: 4.005 metrar af eintómri hamingju. Undirritaður er kannski ekki mesti glanninn í bænum (vitandi sem er að ef tækist að dælda stuðara eða rispa felgu þá yrði það dregið af ritlaununum, frekar en að áskrifendum væri sendur reikningurinn), en það var eins og 911 laðaði fram einhvern púka: „Stígðu ögn fastar á bensíngjöfna – enn fastar – fastar!“ hvíslaði þessi púki. Lögmál eðlisfræðinnar leystust upp því tíminn varð að engu: Ekkert eftir nema hrá og djúpstæð tilfinning: hraði, og meiri hraði.

Oflof smoflof – betra ökutæki er hreinlega ekki hægt að finna.

Lengi getur gott batnað

Skrifa mætti langa ritgerð um hvernig tekist hefur að bæta áttundu kynslóð 911 á alla vegu. Ef síðasta útfærsla 911 Carrera S er borin saman við þá nýjustu þá er t.d. búið að bæta 30 hestöflum og 30 Newtonmetrum við vélina, svo það tekur næstum hálfri sekúndu skemmri tíma að fara frá kyrrstöðu upp í 100 km/klst. Búið er að endurhanna forþjöppurnar til að bæta viðbragð og draga um leið úr eldsneytisnotkun, og endurhanna líka PDK gírkassann sem þótti samt þegar bera af öllum öðrum gírkössum.

Er meira að segja búið að gera ráð fyrir því að 911 verði rafvæddur að hluta – allur búnaðurinn um borð er þannig að tiltölulega auðvelt ætti að verða að gera tvinn-útgáfu á komandi árum.

Svona má lengi telja: er varla að finna þann millimetra sem ekki er búið að breyta bæta og fínstilla. Og vitaskuld er búið að hlaða nýja 911 tækni sem léttir aksturinn og alla daglega notkun, og grípur inn í ef einhver hætta er á að ökumaður klessi á aðra vegfarendur.

Þægindin og notagildið fóru ekki milli mála í löngum bíltúr á 4S-útgáfu í lok dags, frá kappakstursbrautinni og upp í Chera-Sot de Chera þjóðgarðinn: þröngir og hlykkjóttir vegir? – Ekkert mál. Nákvæmt og notendavænt leiðsögukerfi? – Tjekk. Mögnuð akstursupplifun? – Tjekk. Allt sem prýða má einn bíl? – Tjekk, tjekk og aftur tjekk.

Kynslóð númer átta?

Nei: Kynslóð númer fullkomin.

Porsche 911 Carrera S og 4S

Kynslóð nr. 8

»2.981 cm2 flöt 6 strokka vél með tvöf. forþjöppu

»450 hestöfl (PS), 530 Nm við 2.300-5.000 snún.

»8 gíra PDK sjálfskipting

»8,9-9.0 l/100 km í blönduðum akstri

»0-100 km/klst. á 3,5 sek. (S) og 3,4 sek (4S) með Sport Plus

»Hámarkshraði 308 (S) og 306 (4S) km/klst.

»S er afturhjóladrifinn en 4S með drif á öllum fjórum

»Dekk: 245/34 ZR 20 að framan, 305/30 ZR 21 að aftan

»1.515 kg (S)/1.565 kg (4S) eigin þyngd

»Farangursrými: 132 l

»Koltvísýringslosun: 205/206 g/km

»Verð liggur ekki enn fyrir hjá Bílabúð Benna

Porsche 911.
Porsche 911.
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Vissara er að nota skriðstillinn þegar við á því krafturinn …
Vissara er að nota skriðstillinn þegar við á því krafturinn í vélinni er slíkur að tekur enga stund að fara langt upp fyrir leyfilegan hámarkshraða Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Úti á kappakstursbrautinni er 911í essinu sínu og þýtur í …
Úti á kappakstursbrautinni er 911í essinu sínu og þýtur í gegnum beygjurnar eins og ekkert sé.
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Porsche 911 Carrera
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: