Birkenstock en ekki Blahnik

Nettur og sprækur, án þess að fórna notagildinu. B-Class er …
Nettur og sprækur, án þess að fórna notagildinu. B-Class er Benz í húð og hár og er ekkert að fara hálfa leið í lúxusinum heldur. mbl.is/Árni Sæberg

B-Class byggist á sama grunni og smábíllinn A-Class. Hann er þó vænlegri kandídat í fjölskyldubíl, rúmbetri og hærri. Þökk sé hærri sætisstöðu í nýja B-Class er auðvelt að stíga inn í og komast út úr bílnum, og hún veitir líka gott útsýni yfir veginn og umferðina framundan.

Farangursrýmið er allt að 1.540 lítrum séu sæti felld niður og farþegarýmið ríkulegt. Aftursætið til dæmis nógu rúmgott til að þar geti farið vel um farþega þó þeir séu hvorki barnungir né óvenju lágvaxnir.

Stundum þarf að fórna „lúkkinu“ fyrir þægindi og notagildi, og B-Class er allan daginn Birkenstock-sandalar en ekki Manolo Blahnik-pinnahælar. Það snýr sig enginn úr hálsliðnum þegar maður keyrir framhjá, og fallegur var ekki fyrsta orðið sem mér datt í hug þegar ég sótti hann. Ekki halda-fyrir-augun-ljótur, en skortir allavega kynþokka margra bræðra sinna frá Benz. Hann vann hinsvegar á við akstur, svona eins og fólk með frábæran persónuleika sem fríkkar þegar þú kynnist því.

Bíll fyrir fólk sem vill ekki keyra sjálft

Þrátt fyrir að ég hafi ekki heillast umsvifalaust af útlitinu var B-Class mun skemmtilegri í akstri en ég bjóst við. Ég prófaði B 200 progressive útgáfuna, 163 hestöfl og 8,5 í hundraðið. Vissulega ekki ljóshraði, en í sportstillingu fannst mér hann taka vel við sér. Frammistaðan allavega alls ekkert til að skammast sín fyrir hjá fjölskyldubíl. Og þrátt fyrir að vera þetta hár og rúmgóður fann ég ekki hjá mér sérstaka þörf fyrir að slá mikið af í beygjum sem hann höndlaði eins og mun rúmbetri kollegar hans.

Öryggisbúnaðurinn er svo endalaus. Akreinavari, blindpunktsviðvörun, hraðastillir með fjarlægðarskynjun, active brake assist-neyðarhemlun. Það er ekki allt staðalbúnaður, en listinn yfir fídusa til að aðstoða ökumann við akstur er nógu langur til að mann gruni að þetta sé hinn fullkomni bíll fyrir fólk sem vill helst ekki keyra sjálft.

Viltu hafa ljósin bleik?

Innandyra fær B-Class að skína. Tveir skjáir mynda eina samfellu frá mælaborði og yfir á snertiskjá þar sem hægt er að stjórna nánast öllu í bílnum með einum fingri. Þá er hann búinn MBUX (Mercedes-Benz User Experience) margmiðlunarkerfi sem lærir smám saman inn á ökumann og aðlagar viðmótið að hegðun hans. Leggur til dæmis leiðina í vinnu á minnið og getur stungið upp á fljótlegri leið heim lendi maður í umferðarteppu. Vilji ökumaður ekki káma út stjórnborðið er svo hægt að stjórna flestu frá stýrinu, eða nota raddstýringu. Ef maður ávarpar bílinn: ,,Hey Mercedes“, svarar manni stimamjúk kvenrödd og býður fram aðstoð við eiginlega allt sem hægt er að stilla í bílnum.

Kerfið getur athugað veðurspána á áfangastað, skipt um útvarpsstöð eða fundið fljótustu leiðina heim. Lesið SMS og sent, hækkað og lækkað hitann í miðstöðinni, nú eða skipt um lýsingu í farþegarýminu. Ég er ekki að grínast.

Stemningslýsingin lýsir meðal annars upp lofttúður, hurðir og mælaborð og er fáanleg í 64 litum, litasamsetningum og ljósaáhrifum. Þetta varð fljótt vinsælasti fídusinn hjá fimm ára aftursætisbílstjóra, sem þreyttist ekki á því að skipa frú Mercedes að skipta um lit á lýsingunni.

B-Class er praktískur, rúmgóður, hlaðinn öryggisbúnaði og þrælfínt að keyra hann. Það er svolítið erfitt að staðsetja markhópinn, en hann ætti að henta vel fyrir fólk sem langar í lítinn bíl, en á hávaxna fjölskyldu eða plássfrek áhugamál. Eða eins og kunningi orðaði það: ,,A-Class fyrir fólk sem á hund.“

Mercedes-Benz B-Class

» 1,3l l bensínvél

» 163 hestöfl / 250Nm

» 7G-DCT sjálfskipting

» 5,4l/100 km í blönduðum akstri

» Úr 0-100 km/klst. á 8,5 sek

» Hámarkshraði 223 km/klst.

» Framhjóladrifinn og fæst líka 4MATIC

» Dekk 205/55R17 eins og keyrður

» 1.453 kg eigin þyngd

» Farangursrými 455 l en 1.540 l ef sæti eru lögð niður

» Koltvísýringslosun 126 g/km

» Verð frá 5.230.000 kr.

» Eins og prófaður 6.660.000 kr.

Eins og aðrir Benzar er B-Class sérdeilis fríður að innan.
Eins og aðrir Benzar er B-Class sérdeilis fríður að innan. mbl.is/Árni Sæberg
Ekki skortir rýmið, bæði fyrir hávaxna farþega og farangur.
Ekki skortir rýmið, bæði fyrir hávaxna farþega og farangur. mbl.is/Árni Sæberg
Viðmót leiðsögu- og afþreyingarkerfis heldur áfram að batna
Viðmót leiðsögu- og afþreyingarkerfis heldur áfram að batna mbl.is/Árni Sæberg
B-Class á sér myndarlega bræður, og er alls ekki amalegur …
B-Class á sér myndarlega bræður, og er alls ekki amalegur þó hann beri ekki af í útliti. mbl.is/Árni Sæberg
Smáatriðin eru óneitanlega falleg.
Smáatriðin eru óneitanlega falleg. mbl.is/Árni Sæberg
Smáatriðin eru óneitanlega falleg.
Smáatriðin eru óneitanlega falleg. mbl.is/Árni Sæberg
Smáatriðin eru óneitanlega falleg.
Smáatriðin eru óneitanlega falleg. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: