Ekið í draumi og veruleika

X5 situr vel á veginum, bæði íbeygjum og þegar hann …
X5 situr vel á veginum, bæði íbeygjum og þegar hann er kom-inn vel á annað hundraðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er hægt að eyða einni helgi í margt leiðinlegra en að aka glænýjum BMW sportjeppa, en hlutskipti mitt á dögunum varð einmitt það, að reynsluaka splunkunýjum, í bláglansandi „phytonic“ lit.

Að setjast undir stýri á flottum sportjeppa sem kostar á annan tug milljóna króna, getur ósjálfrátt orðið til þess að maður gleymir stað og stund. Helst vill maður aka án takmarkana og án áfangastaðar. Þar sem ég var í miðju kafi að upplifa þennan draum, bankaði raunveruleikinn skyndilega á dyr í formi leifturljóss úr umferðarmyndavél í Hvalfjarðargöngunum. Ég hafði víst óvart leyft mér að þeysast örlítið of hratt upp gangnabrekkuna, í átt að dagsljósinu – og Akranesi. En um leið og það gerðist hugsaði ég sem svo: „Þessi ökuferð er þess virði.“

Það dugði síðan ekkert minna en tvær ferðir úr Garðabæ og upp á Akranes til að fá sem mestu og bestu upplifunina af bílnum, og til að njóta hans til fulls.

Beislið skýst undan bílnum

Fátt, ef nokkuð, skyggir áhönnunina.
Fátt, ef nokkuð, skyggir áhönnunina. mbl.is/Kristinn Magnússon


Hér er um að ræða einn flottasta bílinn í flota BMW framleiðandans, og ekki skemmir þegar ríkulegum aukabúnaði hefur verið bætt við, eins og raunin var í þessu tilviki. Listaverð grunnútgáfu X5 er 11.890 þúsund krónur, en fer upp í 16.550 þúsund með öllum þeim búnaði sem var til staðar í reynsluaksturseintakinu. Þar má nefna rafdrifið dráttarbeisli, sem skýst undan bílnum þegar ýtt er á takka í skottinu, glæsilegt „panorama“-glerþak með 15 þúsund LED ljósapunktum, Harman Kardon hljóðkerfi og loftpúðafjöðrun. Af þessari upptalningu má sjá að það væsti ekki um blaðamann og farþega hans, á meðan á akstrinum stóð.

X5 er tuttugu ára gamall bíll, fyrst framleiddur árið 1999. Hann er flokkaður sem fimm dyra lúxus sportjeppi af miðstærð, og var fyrsti jepplingurinn sem kom á markaðinn frá BMW.

Síðan þá hefur X5 tekið breytingum með hverri kynslóð og nú er svo komið að varla er hægt að tala um jeppling lengur. Tilfinningin sem ökumaður fær þegar hann nálgast bílinn er eiginlega sú að hér sé á ferðinni „veglegur bíll“, ríkulegur og massífur í allri holningu sinni. Hann situr vel á veginum, bæði í beygjum og þegar hann er kominn vel á annað hundraðið. Það er afar góð tilfinning að gefa honum vel inn og finna 265 hestafla díselvélina og átta þrepa sjálfskiptinguna vinna. Hann rennur ljúft en ákveðið eftir veginum upp í þann hraða sem maður kýs að koma honum á.

Lengri, breiðari og hærri

Lengri, breiðari og hærri.
Lengri, breiðari og hærri. mbl.is/Kristinn Magnússon


Fyrir þá sem hafa gaman af tölum þá er þessi nýjasta útgáfa af X5 fjórum sentimetrum lengri en síðasta árgerð, en 20 sentimetrum lengri en sá upprunalegi frá 1999, sem segir ýmislegt um þróunina. Þá er hann 6,6 cm breiðari en síðasta árgerð, en 14 sentimetrum breiðari en sá upprunalegi. Loks er hann 1,9 cm hærri en síðasta módel en fjórum sentimetrum hærri en upprunalegi bílinn. Allt þetta skilar sér í góðri upplifun þegar setið er í leðurklæddum og rafstillanlegum sætum bílsins, og rúmt er um ökumann og farþega, bæði frammí og afturí.

Í ferðunum upp á Akranes fékk golfsettið að fljóta með, en það var engum vandkvæðum bundið að skutla því í veglegt 650 lítra skottið. Afar handhægt er líka að grípa í takka í skottinu og láta aftursætin falla flöt niður, og stækka þannig geymsluplássið svo um munar.

Á sólríkum sumarkvöldum hér á Íslandi eru lítil not fyrir leysigeisla-framljósin, en í myrkri lýsa þau 600 metra fram á veginn. Grillið á BMW sportjeppunum er mjög áberadi. Sjálfur er ég ekkert sérstaklega hrifinn af útliti þess, en það er þó óneitanlega stór hluti af persónueinkennum bílsins.

Innra byrði X5 er nánast allt upp á 10, og yfir fáu að kvarta. Eins og fyrr sagði er plássið gott að framan og aftan, gott rými fyrir drykkjarmál og flöskur í öllum hurðum og fyrir neðan mælaborðið, milli framsætanna. Mjög gott geymslurými er einnig á milli framsætanna þar sem má skutla ofaní alls konar dóti svo það sé nú ekki að flækjast fyrir manni í akstrinum. Boðið er upp á snertilausa hleðslu farsíma í miðrýminu, auk þess sem USB tengi er að finna á nokkrum stöðum í bílnum.

Fullkomið myndavélakerfi er í X5 og hægt að virða hann fyrir sér frá öllum hliðum og ofanfrá að auki, þegar bakkað er eða þegar maður er að koma sér fyrir í stæði, auk þess sem hátæknilegur búnaður bílsins býður ökumanni upp á að bakka samkvæmt minni út úr ákveðnum aðstæðum.

Gírstöng eins og demantur

Lengri, breiðari og hærri
Lengri, breiðari og hærri mbl.is/Kristinn Magnússon


Gírstöngin er kapítuli útaf fyrir sig. Hún er nokkuð speisuð og líkist demanti. Mörgum gæti fundist hún pínu púkaleg, en mér fannst hún bara þrælskemmtileg og mikið fyrir augað. Upplýsingakerfið er fyrsta flokks, og hægt að nota skjáinn sem snertiskjá en einnig að nota stóran snúningshnapp í miðjunni. Þetta er álíka stjórntæki og er í nýjum og nýlegum Benz bílum, en mér fannst auðveldara að tileinka mér takkann í Benzunum sem ég hef prófað.

Heilt yfir er BMW X5 eigulegur og þrælflottur bíll sem er gaman að keyra og öllum ætti að geta liðið vel í, ökumanni og farþegum.

BMW X5 M50d xDrive

Skottið rúmar allt það helsta og enginn hörgull á stórum …
Skottið rúmar allt það helsta og enginn hörgull á stórum geymsluhólfum í farþegarými.

» 3,0 l díselvél, 6 strokka

» 400 hö / 760 Nm

» 8 gíra sjálfskipting

» 6,8-7,2 l/100km

» 0-100 km/klst á 5,2 sek.

» Hámarkshr. 250 km/klst.

» Fjórhjóladrifinn

» 315/35 R20 dekk

» Eigin þyngd 3.080 kg

» Farangursrými 575 l

» Sótspor: 179-179 g/km

» Verð frá 11.890.000 kr, 16,490.000 kr eins og prófaður.

X5 hefur batnað með hverri kynslóðinni og er orðinn mjög …
X5 hefur batnað með hverri kynslóðinni og er orðinn mjög veglegur í alla staði. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: