Drengur í dótabúð

Baldur og Logi á góðri stundu. Bíllinn vakti mikla hrifningu …
Baldur og Logi á góðri stundu. Bíllinn vakti mikla hrifningu hjá ungviðinu þegar honum var ekið fram hjá grunnskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einu sinni átti ég sportbíla. Það var gaman. Það er eitthvað við að aka um á bíl sem bregst við um leið, svínliggur í öllum beygjum og getur gert nánast hvað sem er. Það er svo notalegt að vita að það er nóg til í vélinni.

Svo eignast maður börn og enn fleiri börn og sameinaður í sektarkennd og samviskubiti, með slettu af skynsemi, skiptir maður á tveggja sæta sportbíl og sjö sæta strumpastrætó og telur sér trú um að það sé nú bara nokkuð fínn bíll. En draumurinn fer ekki neitt.

Það var því ekki erfitt að selja mér að fá að prófa Ferrari 488GTB Novitec. Það er klárlega nokkuð sem maður þarf að gera áður en maður deyr. Já og sennilega sem oftast.

Baldur Björnsson er eigandinn. Hann sækir mig og þegar ég geri mig líklegan til að fara farþegamegin veifar hann lyklunum og réttir mér.

Maður verður ósjálfrátt feiminn. Já og pínu stressaður. Hræddur við að skemma eitthvað og gera einhverja vitleysu. Missa stjórn á öllum þessum hestöflum. Sem er reyndar ekki galið því nóg er af þeim. Baldur segir mér að þetta sé fyrsti bíllinn frá Ferrari í 20 ár með túrbínu. Það róar mig ekkert sérstaklega mikið. Bílinn er 756 hestöfl. 756! Hámarkshraðinn er 342 km. Þetta eru tölur sem tekur smá stund að melta.

Lagst í ökumannssætið

Bara að setjast inn í svona ökutæki er kúnst. Þegar maður er 193 sentimetrar er það pínu aðgerð en lærist fljótt. Maður meira leggst inn í bílinn en sest. Hann liggur alveg niðri við götu og eitt það fyrsta sem maður lærir er að fara varlega í hraðahindranir. Það er svolítið af þeim í Vesturbænum og því förum við varlega af stað. Það er reyndar hægt að hækka hann aðeins en í þessari stillingu verður nándin við götuna og upplifunin jafnvel enn sterkari.

Það er merkilegt að aka framhjá Melaskóla. Strákar í frímínútum hlaupa með bílnum. Algjörlega trylltir af spenningi enda er varla hægt að kalla þetta venjulegan bíl. Þeir eru bara tveir á Íslandi og hinn er gamli bíllinn hans Baldurs.

Smám saman nær maður tökum á þessu og það hjálpar að bíllinn vill allt fyrir þig gera. Aksturstölvan er hér til að þjóna og skila hámarksánægju af akstrinum. Það er hægt að stilla hana í að leiðrétta alls konar vitleysur eða leyfa aflinu bara að fljóta hindrunarlaust. Ég vel fyrri kostinn.

Baldur situr rólegur með mér. Reyndar gerist það annað slagið að hann setur bremsufótinn aðeins niður en virðist merkilega slakur með ökumann sem er eins og lítið barn í dótabúð.

Að njóta gæðanna

Ég spyr hann um kraftinn. Hvort hann sé bara ekki of mikill fyrir göturnar á Íslandi. Hann hefur greinilega fengið þessa spurningu áður: „Maður getur átt frábærar græjur án þess að vera alltaf að spila allt í botni. Stundum er bara gott að njóta gæðanna.“

Það er alls ekki galið svar því í tónlist væri þessi bíll hinn hreini tónn rokksins. Hljóðið er eins og klassísk íslensk húsmóðir á árum áður sem segir: „Það er nóg til. Og meira frammi.“ Svo er meira að segja hægt að opna svo það heyrist meira í vélinni. Það kom mér á óvart hversu gaman það er. Maður tengist vélinni betur og verður nánast eins og ein heild með bílnum.

Önnur spurning sem Baldur hefur örugglega oft svarað er hvort svona tæki sé ekki hræðilega dýrt. „Ég á fyrir þessu,“ segir hann rólegur. Sem er býsna gott svar og í því felst ákveðin nálgun á að gera það sem maður vill. Rauður Ferrari segir það reyndar líka nokkuð ákveðið.

Annað sem vekur athygli er hve bíllinn er einfaldur. Hann er ekki með hinum hefðbundna stokk sem maður á venjast. Það er ekki gert ráð fyrir glasahöldurum, klinkhólfi, geymsluboxi og öllu hinu sem við sjáum í venjulegum bílum. Í þessum bíl ertu til að keyra. Ekki til að ferðast með fullt af drasli. Það er samt farangursrými í honum, undir það sem við myndum venjulega kalla vélarhlíf – að framan – en í Ferrari er vélin aftur í. Undir gleri.

Enginn glanni

Allt hefur mjög skýran tilgang og er skemmtilega mínimalískt. Að auki er meira pláss fyrir fætur og þó að bíllinn sé lítill er hann merkilega rúmgóður og þægilegur fyrir ökumann og farþega. Þennan eina því bíllinn er vitaskuld bara ætlaður fyrir tvo.

Bremsurnar eru ótrúlegar. Bílinn snarstoppar. Sem gefur manni töluvert öryggi. Og maður hefur á tilfinningunni að þessi bíll láti sérlega vel að stjórn.

Það eru ýmsir hlutir sem maður á ekki að venjast. Baldur segist til dæmis keyra bílinn „mikið í gírunum“ og í stýrinu eru ljós sem segja honum hvenær hann á að skipta. Og það er ekki flókið enda skiptingin í stýrinu. Meira að segja stefnuljósin eru inni á stýrishjólinu. Allt miðast við að halda halda augunum á veginum og höndunum á stýrinu.

Baldur tekur við og það fer ekki framhjá neinum að hann er vanur, enda hefur hann keyrt kappakstursbíla í 15 ár. „Það byrjaði bara fyrir tilviljun. Ég hef verið að keyra formúlubíla og hef verið að keyra á hringakstursbraut Kvartmílunnar.“

Hann segist alltaf halda sig langt frá efri mörkum bílsins. „Ég er enginn glanni og ég er enginn hraðafíkill. Þetta snýst meira um að njóta bílsins. Ef ég ætti að lýsa þessum bíl myndi ég segja að hann væri mjög viljugur. Og það er geggjað að keyra hann upp úr 2. og 3. gír. Hann er svo skarpur.“

Baldur keypti Ferraríinn árið 2017. Frá Svíþjóð af öllum löndum! Honum hefur verið breytt af Novitec í Þýskalandi og er á 22" felgum frá Vossen. Það er líka heldur meira vesen að eiga svona bíl. Það þarf að láta yfirfara hann einu sinni á ári. Í útlöndum.

En það má glöggt sjá að Baldur er sáttur við farartækið, enda varla annað hægt. Þetta er eitthvað miklu meira en bíll. Þetta er yfirlýsing: Ég er á þessum bíl. Hvað ætlar þú að gera í því?

Ferrari 488 sportbíllinn er draumabíll margra, og ökutæki í algjörum …
Ferrari 488 sportbíllinn er draumabíll margra, og ökutæki í algjörum sérflokki. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ekki er um grunnútgáfu að ræða heldur búið að bæta …
Ekki er um grunnútgáfu að ræða heldur búið að bæta og breyta til að auka kraftinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ferrari sportbílar hafa verið allt of sjaldséð sjón á íslenskum …
Ferrari sportbílar hafa verið allt of sjaldséð sjón á íslenskum götum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Allt umhverfi ökumanns tekur mið að því að Ferrari á …
Allt umhverfi ökumanns tekur mið að því að Ferrari á helst að aka greitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Vélin er höfð til sýnis, eins og vera ber, undir …
Vélin er höfð til sýnis, eins og vera ber, undir glerþaki að aftan. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: