Létt og spræk Ampera-e

Ampera-e er rennilegur á að líta í snjónum og líkt …
Ampera-e er rennilegur á að líta í snjónum og líkt og á við um flesta rafbíla er hann góður í vetrarfærðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ampera-e er stór smábíll og snerpan er í öfugu hlutfalli við það sem virðist við fyrstu sýn. Blaðamaður verður að viðurkenna að hann hafði nokkra fyrirvara á bílnum þegar hann settist í fyrsta sinn við stýrið enda orðinn vanur að prófa stóra, dýra rafbíla sem sprengt hafa alla skala í lúxus, krafti og kynngimagnaðri tækni.

En það var raunar áður en bíllinn var ræstur sem tvær grímur runnu á undirritaðan. Í fyrsta lagi var ótrúlega þægilegt að setjast inn í bílinn – beint inn og meira að segja er tekið úr hurðafalsinum neðanverðum til þess að auka á þægindin. Í öðru lagi sýndi létt skoðun á farþegasætum aftur í og skotti að plássið er furðugott og í allt öðrum flokki en t.d. á Renault Zoe þar sem fullvaxnir karlmenn og ferðatöskur eiga ekki í nein skjól að venda.

Svo var tekið af stað og líkt og með flesta aðra rafbíla var snerpan mjög góð og jafnvel svo að maður þakkaði fyrir að gatan var þurr. En þar var stillt á sportstillingu sem ekki er endilega nauðsynleg í almennum borgarakstri.

Stýrikerfið að mestu þægilegt

Athygli vekur hversu gott innanrýmið er. Það á við um …
Athygli vekur hversu gott innanrýmið er. Það á við um aftursæti og skott. mbl.is/Kristinn Magnússon


Stjórnkerfi bílsins er að mestu þægilegt í notkun en viðmótið á snertiskjá er þó á stundum óþarflega flókið. Það venst þó tiltölulega fljótt. Er hægt að fylgjast með orkunotkun bílsins og m.a. fræðast um hvaða þættir það eru helst sem ganga á rafhlöðuna. Á stýrishjóli eru allir hefðbundnu takkarnir sem maður vill ganga að vísum og þá er mótorbremsan sem hægt er að stýra á tveimur handföngum á stýrinu einnig mjög þægileg. Mest kom mér þó á óvart hversu góður bíllinn var þegar hann var stilltur á „einsstigsstýringu“ (one pedal driving). Þannig er með einni aðgerð hægt að breyta inngjöfinni þannig að hún virki sem bremsa þegar henni er sleppt. Í Ampera-e er þessi búnaður sérlega aðgengilegur og fljótur að venjast.

Rafhlaðan vel staðsett

Stjórnkerfið er aðgengilegt og gott að fylgjast með orkunotkun.
Stjórnkerfið er aðgengilegt og gott að fylgjast með orkunotkun. mbl.is/Kristinn Magnússon


Í bílnum er 60 kWh rafhlaða sem gerir framleiðandanum kleift að gefa bílinn upp með allt að 500 kílómetra drægi. Nærtækara er að tala um 400 kílómetra en það er þrátt fyrir allt feikilegt drægi og miklu meiri en þarf fyrir flesta almenna notkun.

Ampera-e er hannaður frá grunni sem rafbíll og rafhlöðunni er því sérstaklega haganlega komið fyrir undir bílnum og liggur hluti hennar upp undir aftursætin. Þannig er skottplássið í raun miklu meira en maður á að venjast í bíl af þessari stærðargráðu og aðeins Nissan Leaf sem státar af viðlíka rýmisnýtingu. Bíllinn er spennandi kostur fyrir þá sem vilja gott ökutæki í borgarsnattið án þess að gefa of mikinn afslátt á notkunarmöguleikum sem tengjast fleiri en einum farþega og farangri. Hann virkar að einhverju leyti léttari en Leaf og e-Soul og sver sig að því leyti meira í ætt við Zoe þótt bílarnir séu að öðru leyti ekki samanburðarhæfir, líkt og áður segir.

Verðið á bílnum er auk þess gott. Þótt það kunni að vaxa einhverjum í augum að borga 4,5 milljónir fyrir smábíl þá verður að taka tvennt inn í þá jöfnu. Annars vegar að hann gengur fyrir rafmagni og það er afar hagstætt að hlaða hér á landi. Hins vegar það að bíllinn býr yfir ýmsum kostum umfram smábíla almennt. Því kynnast þeir sem láta vaða og prófa.

Opel Ampera-e

» 150 kW rafmótor

» 60 kWst rafhlaða

» Drægi u.þ.b. 400 km.

» 204 hö / 360 Nm

» Sjálfskiptur

» 0-100 km/klst á 7,3 sek.

» Framhjóladrifinn

» Þyngd 1.691 kg.

» Farangursrými 381 lítrar

» Koltvísýringslosun 0 g/km

» Umboð: Bílabúð Benna

Verð frá 4.990.000 kr

Öllu er haganlega komið fyrir í þessum stóra smábíl, ekki …
Öllu er haganlega komið fyrir í þessum stóra smábíl, ekki síst í húddinu. mbl.is/Kristinn Magnússon



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: