Öruggur í hamförum

L200 er fjölhæfur, og nýtist jafnt sem fjölskyldubíll, útivistarbíll, vinnubíll …
L200 er fjölhæfur, og nýtist jafnt sem fjölskyldubíll, útivistarbíll, vinnubíll og jafnvel torfærubíll ef út í það er farið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umboðsaðili Mitsubishi L200-pallbílsins hefur lýst því þannig að nýjasta útgáfa þessa 40 ára gamla vinnugarps geti auðveldlega tilheyrt tveimur ef ekki þremur heimum. Hann geti nýst sem fjölskyldubíll, útivistarbíll, vinnubíll og jafnvel torfærubíll ef út í það er farið.

Það var því óneitanlega spennandi að fá þennan fjölhæfa grip í hendur niðri í Heklu á Laugavegi á dögunum, aðeins örskömmu áður en eitt mesta hamfaraveður í manna minnum átti að ganga yfir höfuðborgarsvæðið, með sínum appelsínugulu og rauðu viðvörunum blikkandi í öllum miðlum.

Hvergi betra að vera

Það fyrsta sem ég hugsaði var auðvitað – er nokkurt ökutæki betri íverustaður en þetta þegar slíkar hamfarir ganga yfir, nema kannski ef vera skyldi einhver margra tonna Hummer hertrukkur? Ég taldi mig að minnsta kosti vel settan með bílinn hvað öryggið varðaði, og þegar ég steig inn var ljóst að það myndi heldur ekkert væsa um mig þar á meðan illviðrið gusaðist yfir. Sætin eru úr leðri, ég get kveikt á tónlist í útvarpinu og hita í sætum og stýri og einfaldlega haft það verulega huggulegt, sem er ekki sjálfgefið í bíl sem einhverjir myndu kannski helst tengja við girðingavinnu úti í sveit eða flutning á trjárusli úr görðum. Þeir sem það vilja geta meira að segja opnað geymslurýmið milli framsætanna og náð þar í lausan öskubakka, smellt honum í glasahaldarann milli sætanna og fengið sér smók inni í bílnum, þó að enginn mæli með því auðvitað.

Það er frekar kalt á landinu þessa dagana og því kom hitinn í sætum í góðar þarfir. Þar er boðið upp á tvær stillingar, og báðar gáfu þær nokkuð fullnægjandi yl. Stýrið aftur á móti hitnar aðeins á tveimur stöðum, þannig að það var pínu svekkjandi – jafn notalegt og það er nú að halda um ylvolgt stýri í akstri í landi úti á norðurhjara – að finna ekki hitann allan hringinn.

Ekki eins langur og maður heldur

Á þeim dögum sem ég hafði bílinn til umráða sinnti ég hinum ýmsu erindum. Ég fór í Kringluna, í ræktina, skrapp út í búð og í bíó eins og gengur. Það vandist ágætlega að vera á jafn stórum og löngum bíl og L200 er. Í rauninni heldur maður líka að hann sé lengri en hann er. Vissulega er hann langur og afturendinn stendur aðeins út úr á bílastæðinu, en ekki eins mikið og maður heldur fyrir fram. Ef bílastæðið er þröngt og stutt í næsta bíl fyrir aftan er kannski ekki hægt að mæla með því að vera í miklu puði þar á þessum bíl, en það má á móti minnast á að bíllinn er búinn helstu öryggistækjum sem finna má í flestum bílum samtímans. Myndavélar eru allan hringinn, bakkmyndavél og bakkaðstoð, hliðarspeglavarar og þar fram eftir götunum. Allt þetta hjálpar til við alla umgengni um bílinn og maður getur látið hann þjóna sér vel í hinu daglega lífi í borg og bæ.

Ég var búinn að minnast á leðursætin í bílnum, sem eru meira að segja rafdrifin ökumannsmegin. Það er frábær lúxus að mínu mati. En það er fleira sem gerir bílinn aðlaðandi að innan. Höfuð- og fótapláss að aftan er gott. Sætin eru þægileg. Það eru tvö USB-tengi fyrir aftursætisfarþega, og tvö fyrir framsætin, og þar að auki er boðið upp á HDMI-tengi, sem ég hef ekki séð áður í bifreið. Hægt er að koma fyrir átta flöskum í glasahöldurum bílsins, og meira að segja væri hægt að setja stóra brúsa í hurðirnar, en í niðurfellanlegri brík í miðjunni aftur í er pláss fyrir tvær flöskur. Þá komast tvær fyrir í plássinu milli framsætanna, aftan við gírstöngina.

Í stýrinu er auðvelt að stjórna hinu og þessu, eins og t.d. skriðstillingunni og útvarpinu, auk þess að flippa á milli upplýsinga í mælaborði og skipta á milli upplýsinga í upplýsingakerfi og myndavélar – meira að segja á ferð. Myndavélin neðan á hliðarspeglunum er þó lítt praktísk ef maður kíkir á hana á ferð, en líklega nýtist hún manni ef maður er að leggja bílnum upp við götukant til dæmis.

Líkur Outlander

Bíllinn er ekki ólíkur bróður sínum Mitsubishi Outlander PHEV að framan, eiginlega alveg eins, með sterklegar, stórar og traustvekjandi línur. Horft á hlið er bíllinn með ávalar línur – en persónulega finnst mér bíllinn líta betur út án hússins yfir pallinum, þótt það sé vissulega praktískt.

Ég reyndi án árangurs að opna afturhlerann til að skoða pallinn, en lyklarnir á lyklakippunni náðu einfaldlega ekki að snúa læsingunni, og engan takka fann ég til að opna. Þar af leiðandi verður rýmið á pallinum sveipað dulúð, því skyggt glerið kom líka í veg fyrir að ég gæti skoðað pallinn inn um rúðuna.

Ég er búinn að lýsa kostum bílsins að innan, en í akstri er hann einnig afar þægilegur. Einhverjum gæti þótt hann pínu hastur í fjöðruninni, en mér fannst hann notalegur. Fjöðrunin verður að vera pínu stíf, enda á að vera hægt að flytja heilt tonn á palli þessa dísilfáks. Þá er dráttargeta L200 yfir þremur tonnum.

Í ójöfnum utan vegar, og í mikilli ófærð, koma fleiri kostir bílsins í ljós og fá þá tækifæri til að njóta sín. Það er tvímælalaust mikill kostur að hægt er að læsa drifinu á bílnum. Það nýtist vel í mikilli ófærð. Þá er geggjað að láta hann lulla í lágu drifi yfir hvers konar torfærur, auk þess sem hægt er að ýta á takka sem hjálpar honum að fara niður brekku í rólegheitum við slíkar aðstæður. Þá má minnast á að bíllinn er byggður á grind, sem mörgum þykir kostur.

Hægt að hækka hann upp

L200 er ekki beinlínis torfærubíll. Af því að hann er svo langur er maður ögn smeykur við að reka hann upp undir í miðjunni, en hægt er að láta hækka hann upp ef maður ætlar sér að nota L200 í einhver utanvegaævintýri. Þá er það mikill kostur að hægt er að nota hann bara með afturdrifinu, og spara þannig orku, en skella honum í aldrif á öllum fjórum hjólum þegar svo ber undir. Flapsar eru í stýrinu sem gera bílinn beinskiptan á augabragði ef maður grípur í þá.

Festingar eru fyrir barnasæti í aftursætum, sem gerir hann enn fjölskylduvænni. Aðgengi er lyklalaust og í húninum er takki til að læsa bílnum þegar farið er út. Eins og fleiri bílar í dag lætur L200 vita með nokkrum píptónum ef maður fer með lykilinn í burtu meðan bíllinn er í gangi. Og stýrið er liðugt og lipurt.

Þessi bíll gerir sem sagt allt sem maður býst við af svona bíl, og í raun meira til. Hann er sannarlega fjölhæfur, þó að sum bílastæði henti kannski verr en önnur.

Mitsubishi L200

» 2,2 lítra dísilvél

» 150 hestöfl/400 Nm

» Dráttargeta 2.000 kg.

» 6 þrepa sjálfskipting

» 0-100 km/klst.: 10,5 sek.

» Hámarkshraði: 171 km/klst.

» Drif: 4WD

» Felgur 18''

» Eigin þyngd: 2.035 kg.

» Farangursrými: Pallur 152 cm x 152 cm

» Mengunargildi: 199 g/km

» Eyðsla Í blönduðum akstri: 7,6 l.

» Verð frá: 5.490.000

Sætin eru öll leðurklædd og framsætin eru upphituð og þægileg
Sætin eru öll leðurklædd og framsætin eru upphituð og þægileg mbl.is/Kristinn Magnússon
L200 er frekar langur bíll, en ekki eins langur og …
L200 er frekar langur bíll, en ekki eins langur og manni finnst þegar leggja þarf honum í stæði. mbl.is/Kristinn Magnússon
Blaðamanni gekk illa að opna bílinn að aftan, hvort sem …
Blaðamanni gekk illa að opna bílinn að aftan, hvort sem þar var klaufaskap um að kenna eða öðru. mbl.is/Kristinn Magnússon
Framendinn er mjög líkur hinum vinsæla Outlander PHEV.
Framendinn er mjög líkur hinum vinsæla Outlander PHEV. mbl.is/Kristinn Magnússon
Vel fer um aftursætisfarþega. Gott höfuðpláss og sömuleiðis er ágætlega …
Vel fer um aftursætisfarþega. Gott höfuðpláss og sömuleiðis er ágætlega rúmt um fætur. Einnig er hægt að setja síma í hólf og hlaða í USB. mbl.is/Kristinn Magnússon
Vélin skilar sínu og flapsar í stýrinu fyrir þá sem …
Vélin skilar sínu og flapsar í stýrinu fyrir þá sem vilja betri tengingu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: